139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[17:45]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst út af því sem hv. þingmaður endaði á, að ég hefði oftrú á Landhelgisgæslunni. Það getur vel verið að það sé mat hv. þingmanns, en það er ekki mitt persónulega mat. Ég hef tvisvar á ævinni staðið frammi á þverhníptum bjargbrúnum og horft á sjómenn berjast fyrir lífi sínu. Þeir sem stóðu í landi, og það voru ekki einn eða tveir heldur tugir manna, gátu akkúrat ekkert gert nema horfa á áhöfnina deyja. Þeir sem björguðu voru annars vegar varnarliðsþyrla og hins vegar Landhelgisgæslan. Það er kannski þess vegna sem ég hef svona mikla trú á því góða fólki sem starfar þar.

Sú breyting sem hefur orðið í öryggismálum sjómanna snýr að hinu mikla og góða skrefi Slysavarnaskóla sjómanna og ekki síður þessum staðsetningarkerfum sem við erum komin með, STK-unum fyrst, síðan AES-inu, sem gera það að verkum að núna þarf eiginlega ekki lengur að leita að bátum. Það sést nákvæmlega hvar viðkomandi bátur er staddur á þeirri sekúndu sem gáð er að því. Það ljós blikkar allan sólarhringinn. Detti það út einhverra hluta vegna er strax haft samband við bátinn. Í dag hafa framfarirnar orðið þvílíkar að það þarf ekki að leita, það þarf að bjarga. Þegar menn lenda í nauðum og erfiðleikum er það hins vegar alltaf þannig að sá sem er styst frá og hefur tök á að bjarga mun auðvitað gera það. Þegar menn fara upp í strand eða þá rekur upp í kletta einhverra hluta vegna eru það fyrst og fremst þyrlurnar sem geta bjargað sjómönnum. Það er bara staðreynd. Eins og ég sagði er það kannski vegna þess að ég hef horft á þetta í tvígang sem ég hef þessa miklu trú.

Hvað varðar fjölda strandveiðibáta sem hv. þingmaður spurði um eru engin takmörk á því hvað hægt er að fjölga þeim mikið. Ég bendi líka á að þúsund tonna togari getur farið á strandveiðar. Það er engin heldur stærðartakmörkun á því hversu stór skip mega fara á strandveiðar. Það er bara svoleiðis.