139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[17:58]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessi fyrirspurn kallar á langa og ítarlega ræðu um eignarrétt og atvinnufrelsi borgara þessa lands samkvæmt stjórnarskránni. Ég get þó svarað spurningu hv. þingmanns með því að ég tel að sú ríkisstjórn sem er við völd í landinu í dag beri mjög takmarkaða virðingu fyrir eignarrétti, atvinnufrelsi og almennum frelsisréttindum einstaklinga á Íslandi. Þá skiptir engu máli hvort um er að ræða eignarréttindi manna á landi, hugsanlega í sjó eða á fasteignum. Það hefur þessi hæstv. ríkisstjórn sýnt með því að hóta eignarnámi vegna réttinda sem menn hafa aflað sér í frjálsum viðskiptum. Það hafa ríkisstjórnin og forsvarsmenn ríkisstjórnarflokkanna sýnt með yfirlýsingum um að þeir telji eðlilegt að svipta menn atvinnufrelsi sínu og atvinnuréttindum eins og með fyrningarleið í sjávarútvegi — bótalaust.

Það er til merkis um að þessi ríkisstjórn hefur engan sérstakan áhuga á að virða eignarréttindi manna eða atvinnufrelsi. Þarna erum við bara stödd, því miður. Svona var þetta ekki fyrir fáeinum missirum þar sem frelsi manna var virt og (Gripið fram í.) eignarréttur varinn sem er grundvöllur okkar samfélags. Síðan tók hér við fyrsta hreina vinstri stjórnin í landinu (Gripið fram í.) sem hefur snúið þessu öllu við með sínum sósíalísku viðhorfum. Það blasir við í geysilega mörgum málum. Ég ber kvíðboga í brjósti fyrir hönd einstaklinga í þessu landi, hvort sem þeir eiga mikið undir sér eða lítið, vegna þess að þróunin er skelfileg og það er ekkert sem bendir til þess að hún muni batna verði þessi ríkisstjórn öllu langlífari.