139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[18:11]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hjó eftir því í fyrri hluta ræðu hv. þingmanns að hann nefndi frumvörpin VG-frumvarpið og samfylkingarfrumvarpið. Mér finnst það afar athyglisvert. Ég verð að viðurkenna að ég hafði ekki náð að stilla þeim þannig upp fram að þessu, en þetta er hins vegar augljós nálgun.

Mig langar að spyrja hv. þingmann vegna óbilandi áhuga hans á hagrænum áhrifum hinna ýmsu frumvarpa hvort hann telji þessi frumvörp eins og þau liggja fyrir, vitanlega eiga þau eftir að taka breytingum, geta ógnað bankakerfinu og fjármálastöðugleikanum, eins og hv. þingmaður kom reyndar aðeins inn á, sem allir eru að reyna að búa til hér á landi en gengur brösuglega, og hvort frumvörpin eins og þau líta út og eru lögð fram séu til þess fallin að auka traust og trúnað í heimi fjármálanna eða hvort þau dragi úr líkum á að hér komist á friður og ró og fjármálakerfið geti gert það sem það á vitanlega að gera, þ.e. nýta þá fjármuni sem koma inn í bankana til að stuðla að atvinnuuppbyggingu og þess háttar.

Síðan væri ágætt ef hv. þingmaður gæti líka velt upp fyrir okkur áhrifum frumvarpsins á kjör sjómanna og landverkafólks, sem mér finnst of lítið hafa verið rætt um í þeim umræðum sem ég hef heyrt úr þessum ræðustóli. Ef fleiri slást um sama fiskinn, hefur það ekki einhver áhrif á þennan hóp fólks?