139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[18:30]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að ég hafi verið alveg skýr, ég vil kalla þau til baka til að auka möguleika hjá þeim fyrirtækjum sem eru á jaðrinum á því að geta staðið í skilum og unnið sig út úr þessum málum. En það er líka annað sem ég vil gera og það hef ég predikað hér alveg frá því að ég kom inn á þing og meira að segja áður en ég kom inn á þing og það er að skuldir verði afskrifaðar hjá þeim fyrirtækjum sem þarf að afskrifa hjá. (Gripið fram í.) Það er algjörlega ljóst að þegar lánin voru færð á milli gömlu og nýju bankanna var gert ráð fyrir afskriftum. Ég vil að þær afskriftir skili sér til fyrirtækjanna. Það þýðir ekkert að láta eins og það að skattleggja fyrirtæki og fjölga í greininni þannig að meðaltekjur lækki breyti einhverju eða að það hafi ekki áhrif á hversu vel fyrirtæki geta staðið við skuldir sínar. Það gengur ekki upp rökfræðilega.