139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[18:41]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég var ekki beinlínis að gagnrýna ræðu hv. þingmanns áðan, það er misskilningur, heldur nefndi það að hann hefði ekki talað mikið efnislega um það frumvarp sem við erum að ræða hér. Hann velti öðrum tæknilegum atriðum fyrir sér og ég gerði engar athugasemdir við það.

Í skýrslu endurskoðunarnefndarinnar, svo ég ítreki það, er verið að tala um yfirskuldsetningu, að jafnvel um 60% séu vegna kaupa á aflaheimildum. Það er talað um mismunandi mat bankanna eins og kemur fram í skýrslunni, hvað er fjárfesting í ótengdum greinum, 15%, 20%, 10% o.s.frv. Stærsti hlutinn er vegna kaupa á veiðiheimildum. Það er ekki beinlínis merki um, og ég vitna þá í rannsóknarskýrslu Alþingis, að það væri mikil arðsemi í sjávarútveginum á þeim tíma. Aukið aðgengi að fjármunum til að kaupa veiðiheimildir var aðalorsökin fyrir því hvað menn keyptu mikið og hvernig verðið á veiðiheimildum steig jafnt og þétt. Þetta er á sama línuriti og maður sá á hlutabréfamarkaðnum sem gerðist á sama tíma þegar aðgengi að peningum jókst mikið, það sama gerðist á húsnæðismarkaðnum o.s.frv. Sama trendið var í aflaheimildum.

Ég fæ það ekki alveg til að ganga upp að þetta sé lýsandi dæmi um arðsemina í greininni ef þessi yfirfjárfesting hefur leitt til þess að um 60% sjávarútvegsfyrirtækja á Íslandi eru annaðhvort í mjög erfiðri stöðu eða jafnvel óviðráðanlegri. Það er ekki beinlínis afrakstur af því að þetta hafi verið mjög hagkvæmur bisness í raun og veru, þessi yfirskuldsetning. Ég ítreka spurningar mínar í því sambandi: Telur hv. þingmaður að það þurfi að taka á þessum málum með einhverjum hætti og hvernig á þá að leysa úr þeim vanda sem mér sýnist íslenskur sjávarútvegur vera í ef eitthvað er að marka þessa skýrslu á annað borð?