139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[20:18]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ber fulla virðingu fyrir því að hv. þm. Magnús Orri Schram hafi eigin skoðanir á þessu máli sem ekki endilega fara saman við það sem fram kemur í frumvarpinu. Ég fagna því að hann skuli ekki styðja frumvarpið umyrðalaust.

Ég þarf hins vegar að spyrja hann aðeins frekar til að fá nákvæmari útlistun á því hvað hann er að tala um ef við tökum fyrir litla frumvarpið sem slíkt og sleppum þeim breytingum sem fyrirhugaðar eru með stærra frumvarpinu. Er hv. þingmaður sáttur, fyrir utan reglugerðarheimildir og annað þess háttar, við alla þá pottagaldra sem hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur skrifað í það frumvarp, eða aðrir þingmenn stjórnarflokkanna sem sannanlega komu að undirbúningi þess?