139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[20:29]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sagði í ræðu minni hvað varðar nýtingarsamningana að ég teldi ekki skynsamlegt að þeim lyki öllum á sama tíma. Ég tel að það sé mjög skynsamlegt að við dreifum þeim þannig að útgerðin geti búið við að hluti nýtingarsamninganna sé til lengri tíma og þá lengri tíma en 20 ára en hluti þeirra sé til skemmri tíma og þannig opnist ákveðin endurnýjun og nýtingartíminn muni því taka mið af stærri fjárfestingum en jafnframt af því að fjárfestingarþörfin og afskriftaþörfin er ekki sú sama af að sækja fisk í sjó og af nýtingu vatnsafls eða jarðvarma. Í jarðvarmavirkjun þarf t.d. að leggja í alla fjárfestinguna í upphafi. Það þekkir hv. þingmaður. Með þeim hætti tel ég að við eigum að nálgast umræðuna um nýtingartímann.

Ég legg á það áherslu að ég er vanur því í þingnefndum að menn taki ekki mál þaðan út með ofbeldi. Menn ræða sig í gegnum málin á vettvangi þingnefndanna og það ber að gera í þessu máli vegna þess að við eigum það skilið og þjóðin (Forseti hringir.) á það skilið af okkur að við reynum að ná sátt í málinu. Það er t.d. miklu styttra á milli Framsóknarflokksins og VG en margra annarra flokka í þessu (Forseti hringir.) máli.