139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[20:32]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Þá er ég dálítið undrandi á að hv. þingmaður skuli styðja sérstaklega fyrra frumvarpið sem gengur út á eintóma potta, strandveiðar, rómantík og slíkt, að fara að heyja með orfi og ljá eins og gert var í gamla daga í staðinn fyrir að nota fullkomin tæki, og gengur á arðsemi greinarinnar. Nú er íslenskur sjávarútvegur óskaplega arðbær í eðli sínu af því að við búum við mjög mikla auðlind en með alls konar kvöðum og skilyrðum getur maður eyðilagt arðsemina. Alveg sérstaklega gengur seinna frumvarpið út á það að banna framsal þegar tveir útgerðarmenn geta veitt með einu skipi, ef þeir mega ekki framselja verða þeir að veiða áfram með tveim skipum og hafa tvöfalda áhöfn, tvöföld skip, tvöfaldar fjárfestingar og allt. Arðsemin fer eins og hjá Norðmönnum, þeir bönnuðu nefnilega framsal. Aðal íslensks sjávarútvegs hefur verið framsalið og arðsemin.