139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[20:34]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Nú er matarhléi lokið og enn hafa hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra ekki birst í salnum. Það væri gott að eiga orðastað við forsætisráðherra ekki síst m.a. eftir þá mjög málefnalegu ræðu sem hv. þm. Magnús Orri Schram flutti áðan.

Ég vil líka benda forseta á að ég er á mælendaskrá og ég vil gjarnan spyrja hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra nokkurra spurninga í þeim fimm mínútum sem ég hef á eftir.

Ég kem þessum ábendingum mínum vinsamlega á framfæri við hæstv. forseta í þeirri veiku von að einhvern tíma verði það svo að hæstv. forsætisráðherra láti sjá sig við þessa umræðu um mikilvægustu atvinnugrein, undirstöðuatvinnugrein okkar Íslendinga.

Síðan að allt öðru og er kannski líka vinsamleg ábending til hæstv. forseta. Það var verið að reyna að draga frá gluggum — ég veit að þetta er þungbúið og erfitt mál, þetta er vont frumvarp og allt það — en ég vildi gjarnan fá meiri birtu inn í salinn og ef það er út af einhverjum tækjum verðum við bara að laga tækin en mér finnst að það eigi að hleypa birtu inn í þingsalinn.