139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[20:43]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Þetta er orðið mjög óviðeigandi árátta hjá þingmönnum, finnst mér, að vera alltaf hrópandi eftir viðveru fólks í salnum. Það vita allir að hægt er að fylgjast með þingræðum og umræðum í þingsal alls staðar í húsinu og í öllum byggingum þingsins. Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur verið viðstaddur þessa umræðu frá því að hún hófst og nú bregður svo við að maðurinn má ekki bregða sér frá í örfáar mínútur án þess að gerð sé sérstök grein fyrir því hér inni hvað hann aðhafist. Það sást til hans drekka úr kaffibolla fyrr í dag og það var umsvifalaust farið að krefjast þess að hann væri viðstaddur umræðuna. Vilja menn nú ekki aðeins slappa af? Getum við ekki tekið þessa umræðu á einhverjum skikkanlegum mótum?

Hæstv. forsætisráðherra hefur líka verið í húsinu og verið að fylgjast með þessari umræðu og verið raunverulega að fylgjast með öllu sem hér hefur verið sagt. (Forseti hringir.) En við verðum líka að virða valdsmörk (Gripið fram í.) og verkaskiptingu milli ráðherra. Þetta mál (Forseti hringir.) sem hér er til umræðu um strandveiðarnar er á forræði hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

(Forseti (KLM): Ég bið um ró í þingsalnum.)