139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[20:46]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Ég ætla ekki að halda áfram þrefi um viðveru einstakra ráðherra en ítreka auðvitað að það væri afar gagnlegt í ljósi þeirra aðstæðna sem upp hafa komið í þessu máli að hæstv. ráðherrar Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon væru viðstödd umræðuna. Þau verða ekki þvinguð til þess með neinum valdboðum en hins vegar er það auðvitað svo að þegar ríkisstjórnarfrumvarp er borið fram af tilteknum ráðherra í ríkisstjórn og hver þingmaður stjórnarflokkanna á fætur öðrum kemur í ræðustól til að gagnrýna veigamikla þætti þess sama stjórnarfrumvarps hljóta að vakna spurningar um hvað forustumenn þessara flokka segja, pólitískir leiðtogar ríkisstjórnarflokkanna. Hvað segja þeir? Eru þeir sammála þeim gagnrýnisröddum sem koma úr þeirra eigin þingflokkum? Það væri áhugavert að vita. Hvað segir hæstv. forsætisráðherra um afstöðu hvers samfylkingarþingmannsins á fætur öðrum sem stigið hefur í þennan ræðustól til að gagnrýna veigamikla þætti í frumvarpi hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra?

Ég get nefnt síðasta ræðumann, hv. þm. Magnús Orra Schram, sem gagnrýndi veigamikla þætti í málatilbúnaði í þessum frumvörpum. Þegar að var spurt kom í ljós að það voru tiltölulega fáir þættir í frumvörpunum sem hann studdi raunverulega. Við höfum líka heyrt gagnrýni frá hv. þingmönnum Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi, Kristjáni L. Möller og Sigmundi Erni Rúnarssyni. Við höfum heyrt gagnrýni af þeirra hálfu á veigamikla þætti í þessu frumvarpi. Við höfum líka heyrt t.d. á hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur að hún hefur athugasemdir við ákveðna þætti í þessu þó að hún eigi enn eftir að halda ræðu en var á mælendaskrá síðast þegar ég vissi. Það er ekki að ástæðulausu, hæstv. forseti, eða út í bláinn að við spyrjum að því hver sé afstaða formanns Samfylkingarinnar og forsætisráðherra í landinu til þessa frumvarps þegar fram kemur að þeir þingmenn hennar eigin flokks sem tjá sig í þessu máli eru afar gagnrýnir á veigamikla þætti í frumvarpinu. Það væri forvitnilegt að heyra sjónarmið forsætisráðherra. Stendur hún með hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra eða stendur hún með sínum eigin flokksmönnum?

Hvað með hæstv. fjármálaráðherra? Með frumvarpi hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fylgdi lítið plagg, umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins sem lýtur einmitt stjórn þessa ráðherra, hæstv. fjármálaráðherra. Í þeirri umsögn er að finna veigamiklar, verulegar og alvarlegar athugasemdir við ákveðna þætti í frumvarpi hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Þar er efast um að mikilvæg ákvæði í þessu frumvarpi standist gagnvart stjórnarskrá. Hvað ætli hæstv. fjármálaráðherra segi um það? Er hann sömu skoðunar og þeir embættismenn sem vinna á hans eigin skrifstofu? Er hann sammála þeim? Hefur hann sömu efasemdir og þeir eða lætur hann sér það í léttu rúmi liggja? Það er óneitanlega mjög athyglisverð spurning. Nú kann vel að vera að hæstv. fjármálaráðherra hafi lögmæt forföll í kvöld en það er auðvitað mjög erfitt að ljúka umræðunni öðruvísi en að einhver sjónarmið af því tagi, einhverjar upplýsingar um afstöðu hæstv. fjármálaráðherra komi fram í þessu máli.

Það er auðvitað vandinn við þetta mál, við þá stöðu sem uppi er, að svo virðist sem þeir hv. þingmenn ríkisstjórnarflokkanna sem talað hafa við þessa umræðu ætli sér að skilja hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra meira og minna einan eftir með þær tillögur sem felast í þessu frumvarpi. Þeir koma hér hver á fætur öðrum og reyna að sverja af sér umdeilanlega og erfiða þætti í þessum frumvörpum, skilja hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra einan eftir með þetta plagg og er þetta þó ríkisstjórnarfrumvarp, samþykkt í ríkisstjórn, samþykkt í þingflokkum ríkisstjórnarflokkanna og eftir því sem okkur skilst samið af samráðsnefnd þingmanna úr báðum stjórnarflokkum. (Forseti hringir.) Þetta er mjög einkennileg staða, herra forseti.