139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[20:51]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Herra forseti. Ég hef átt því láni að fagna á undanliðnum dögum og vikum að ræða við fjöldamarga útgerðarmenn. Mjög mikilvægt er að skiptast á skoðunum við útgerðina í landinu til að nema gagnrýni manna á fram lögð frumvörp stjórnarinnar hvað varðar fiskveiðistjórnarkerfið.

Einn reynslumesti útgerðarmaður Austurlands sagði við mig um þetta atriði að auka ætti jafnræði og réttlæti í greininni. Hann sjálfur sem hefur áratugum saman unnið í þessu kerfi taldi mjög mikilvægt að leita að sáttum í þessu máli og að auka jafnræði og réttlæti í greininni.

Við höfum búið við kvótakerfið sem svo er nefnt um áratugaskeið, frá því í byrjun 9. áratugarins, og enda þótt margir séu á þeirri skoðun að kvótakerfið hafi bæði verið hagkvæmt og reynst vel í takmarkaðri sókn í auðlindina má líka segja að kvótakerfið hafi reynst gott fyrir suma og fyrir sumar byggðir en aðrar ekki. Gallar þess eru augljósir og þeir hafa birst landsmönnum á undanliðnum áratugum með margvíslegum hætti. Megingallinn er vissulega sá, og það svíður þjóðinni, að menn hafa verið að selja það sem þeir eiga ekki. Því verður að breyta og þessi frumvörp taka á því. Megingallinn hefur líka verið sá að í greininni hafa verið menn sem eru ekki að veiða, hafa haldið úti ákveðnu lénskerfi og því þarf að breyta. Megingalli kvótakerfisins hefur jafnframt verið sá að byggðir í landinu hafa búið við óöryggi sem hlýst af sjálfu kerfinu. Menn hafa getað selt sig út úr greininni, flutt aflaheimildirnar úr byggðunum og skilið þær eftir svo að segja allslausar. Þannig hefur byggðafesta þessa kerfis ekki verið sem skyldi. Við sjáum mörg dæmi þessa en við sjáum jafnframt dæmi um annað. Við sjáum jafnframt dæmi um mjög burðug fyrirtæki sem hafa einmitt sýnt mikla byggðafestu og mikinn virðisauka í sínu héraði og því ber að fagna. Við eigum einmitt að breyta kerfinu með þeim hætti að hampa þeim sem hafa farið best með auðlindina, hafa sýnt mestu byggðafestuna, mesta virðisaukann í héraði og verið ábyrgastir, en við eigum að refsa þeim með þessum breytingum sem hafa verið að braska, hafa jafnvel ekki dýft hendi í kaldan sjó þau árin sem þeir hafa haft aflaheimildir með höndum.

Grundvallarbreytingin er skýr og ég tel að langflestir Íslendingar séu sammála henni. Hún hverfist reyndar um 1. mgr. 1. gr. laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, sem er skýr og afdráttarlaus, að aflaheimildir myndi ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildinni.

Meginatriði þeirra breytinga sem koma við sögu í svokölluðu minna frumvarpi og stærra frumvarpi, einkum því stóra, er gerð tímabundinna nýtingarsamninga og það að rjúfa hið meinta eignarréttarlega samband fiskveiðiheimilda sem er mikilvægasta atriðið sem frumvarpið felur í sér. Við erum að afnema ótímabundin forréttindi sem hafa verið ljóður á kerfinu og færa þau yfir í tímabundið leigukerfi rétt eins og við eigum að umgangast aðrar auðlindir þjóðarinnar. Þetta er grundvallarbreyting sem við þurfum að leggja gríðarlega áherslu á.

Nú er það svo að nýtingarhluti aflaheimildanna eða svokölluð aflahlutdeild hefur verið með um 96% til ráðstöfunar á hverju kvótaári en til ýmissa annarra veiða hafa 4% farið. Nú á að stækka þann pott er lýtur að strandveiðum og öðrum veiðum á kostnað stærri útgerðaraðila og ég hef sjálfur sett ákveðna fyrirvara við það hversu stór hinn svokallaði pottur eigi að vera. Allt að 15%, segir hér og hinn 85% þegar fram líða stundir. Ég hef goldið varhuga við því að farið sé hratt í aukningu smærri pottsins. Við sjáum að á undanliðnum árum hefur fjöldi útgerðarmanna keypt sig inn í greinina, þurft að þreyja þorrann vegna minnkandi aflaheimilda, hefur hins vegar skuldsett sig upp í rjáfur til að kaupa þennan kvóta og á ekki að fá rífa hlutdeild í þeirri aukningu sem blasir við í fiskveiðiheimildum. Við þurfum að horfa til þessara aðila sem er stór hluti af útgerðarfólki okkar í dag.

Í nýtingarflokki leigja menn aflaheimildir til ákveðins tíma. Hver á sá tími að vera? Horfum til landanna í kringum okkur. Í Noregi er hann 18 ár, að vísu er það ekki algerlega sambærilegur rekstur vegna þess að Norðmenn ríkisstyrkja sjávarútveg sinn í töluverðum mæli, en, herra forseti, ef við horfum yfir til Grænlands eru þetta fimm ár. Hér er verið að tala um 15 ár og átta ár til endurnýjunar sem ég tel vera í sjálfu sér ágætan tíma en það má vel vera að skoða þurfi þessar tímalengdir betur og horfa til þess hversu ólíkar fjárfestingarleiðir eru í greininni. Sumt er fjárfrekara en annað og ef til vill fer betur á því að leigja suma þætti greinarinnar til lengri tíma og aðra til styttri tíma. Þetta er jú einu sinni lifandi grein, þetta er jú einu sinni grein sem hverfist um lifandi fisk í sjónum og það er ekkert endilega sjálfgefið að einn tími eigi að gilda um alla þætti greinarinnar. Ég tel því vel koma til greina að skoða þessar tímalengdir en ég tel hins vegar að 15 ár plús átta ára endurnýjun sé vel viðunandi fyrir útgerðaraðila í dag, einkum þá stóru og burðugu, í skiptum fyrir frið í greininni sem er útgerðinni og þjóðinni afar mikilvægur.

En þá að gjaldinu, herra forseti. Það hefur verið 6 kr. á kílóið og við erum að tala um að tvöfalda það upp í nálega 13 kr. Ég held að það sé vel innan viðráðanlegra marka. Við sjáum stórar útgerðir á Íslandi leigja þorskkíló af t.d. Rússum í Barentshafi á 70 kr. þannig að 13 kr. samanborið við þær 70 kr. er ekki há upphæð. Ég tel hins vegar mjög mikilvægt að þessir fjármunir renni ekki að mestu leyti aftur til greinarinnar heldur í auðlindasjóð sem taki jafnframt frá öðrum auðlindum þjóðarinnar og þeim fjármunum sé beitt til uppbyggingar á þeim svæðum sem gamla kvótakerfið hefur leikið hvað verst. Það ætti að vera kærkominn sjóður fyrir stór svæði og byggðir í landinu.

Ég tel jafnframt að minni potturinn eigi að mestu leyti að vera svokallaður leigupottur. Ég geld varhuga við byggðapottum sem stjórnað er af sveitarstjórnarmönnum. Ég tel reyndar að öll þessi grein eigi að vera rekin á viðskiptalegum forsendum fremur en pólitískum enda er henni best þar fyrir komið. Ég vil ekki að hokur landbúnaðarkerfisins verði fært inn í góðan rekstur sjávarútvegsins. Ég tel því mjög brýnt og mikilvægt að þeir pottar sem verða við lýði séu að mestu leigupottar og að þær útgerðir sem eru í nýtingarflokknum geti farið inn í þá potta í þeim mæli sem þeim hentar.

Menn hafa goldið varhuga við þeim strandveiðum sem hér er verið að auka að mun. Ég tel eðlilegt að halda að einhverju leyti í rómantískar veiðar sem ég kalla svo vegna þess að ég vil skipta þessu í tvennt, annars vegar í fullburða atvinnuveiðar og hins vegar smábátaútgerð sem hefur vissulega sett svip sinn á landið allt í kring.

Ég vil nefna dæmi af Breiðdal sem missti allan sinn kvóta á sínum tíma en hefur verið að sækja í sig veðrið með strandveiðum á undanförnum árum og þá skulum við horfa í þann virðisauka sem þar hefur orðið. Herra forseti. Hafnarsjóðurinn í Breiðdal halaði inn heilar 663 þús. kr. árið 2008 en 1,13 millj. árið 2010 og útlit er fyrir að á þessu ári verði innkoma hafnarsjóðsins í Breiðdalsvík vel yfir 3 millj. kr. Á sama tími hefur afli á land í þessu þorpi aukist úr 76 tonnum í um það bil 2 þús. tonn. Íbúum hefur fjölgað um 8% sem er vel yfir landsmeðaltali og sveitarstjórinn á því svæði segir að strandveiðar virki vel. Þær virka vel á sumum stöðum og eiga skilið ákveðið svigrúm í þeim sveitarfélögum sem henta best og væri hægt að nefna nokkur önnur sveitarfélög í því efni.

Aðalatriði þessa máls er fólkið í greininni. Aðalatriði þessa máls hverfist að mati þess sem hér stendur um meginmarkmið breytinganna, sem eru í sjálfu sér ekki breytingar, þ.e. að skapa öruggan rekstrargrundvöll í greininni, efla byggð og efla vinnu. Við megum aldrei missa sjónar af þessum meginmarkmiðum frumvarpsins. Þess vegna horfir maður til þeirra stóru byggða þar sem sjávarútvegur hefur verið rekinn með hvað glæsilegustum hætti á undanförnum árum, að vísu með forréttindum, að vísu með ótímabundnum aflaheimildum sem við ætlum að breyta en ég tel að áfram eigi að vera hægt að reka sem fullburða grein sem skilar stórum ávinningi og gróða og virðisauka í samfélagið með þeirri leiguleið sem við erum að fara í þessum frumvörpum.

Ég nefni Fjarðabyggð sem dæmi, 4.600 manna bæjarfélag. Fjórðungur íbúa þar hefur lífsviðurværi sitt af fiski, 480 manns, 230 manns hjá Síldarvinnslunni, 150 manns hjá Loðnuvinnslunni í Fáskrúðsfirði, 100 manns hjá Eskju, 25% íbúa á þessu svæði vinna í fiski. Fólkið er auðvitað aðalatriðið þegar kemur að þessum breytingum og við megum ekki fara þannig með greinina að það óttist sinn hag.

Norðfjörður skilar útflutningstekjum sem nema 20 milljörðum á ári, Eskifjörður 7, Fáskrúðsfjörður 6, Reyðarfjörður tæplega 1 milljarði. Samtals gerir þetta 34 milljarða. Það er jafnmikið og við verjum til Landspítala – háskólasjúkrahúss. 34 milljarðar frá 4.600 manna sveitarfélagi sem að mestu leyti hefur sýnt mjög ábyrgan rekstur í sjávarútvegi, hvort heldur er í uppsjávarafla eða bolfiski, en jafnframt geymt margar helstu meinsemdir kerfisins svo sem eins og þá að menn geti selt sig, eins og dæmin sanna frá Eskifirði, út úr greininni og skilið bæjarfélagið eftir snautt fyrir vikið. Þó að dæmið frá þeim bæ sýni reyndar að hluti fjölskyldunnar vilji snúa við og skuldsetja sig aftur inn í greinina með því að kaupa aflaheimildirnar að nýju og reyna að koma rekstrinum aftur af stað.

Herra forseti. Meginatriðið er þetta eins og ég gat um í byrjun ræðu minnar, eins og einn reyndasti útgerðarmaður Austurlands sagði við mig á dögunum: Við eigum að auka jafnræði í greininni og við eigum að auka réttlæti í greininni (Forseti hringir.) öllum til handa, útgerðarmönnum, fiskvinnslufólki, byggðunum og þjóðinni.