139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[21:08]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef hlustað í þaula á gagnrýnisraddir útgerðarmanna norðan lands og austan og fyrir sunnan á undanförnum dögum. Auðvitað reyna þeir að draga upp dökk ský á himni vegna þeirra frumvarpa sem nú liggja fyrir. Það er hlutverk þeirra, þeir fá einfaldlega borgað fyrir að gagnrýna fram komið frumvarp sem vissulega heggur í þau forréttindi sem útgerðarfyrirtækin hafa búið við á undanförnum árum, ótímabundnar aflaheimildir. Ég tel að þegar þingheimur hefur farið í gegnum það breytingaferli sem fram undan er hvað bæði frumvörpin snertir muni þessi útgerðarfyrirtæki ekki tapa á breytingunum. Ég held að frumvörpin geti einmitt styrkt stærri útgerðir í landinu. Kannski er það líka löstur á frumvarpinu.