139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[22:05]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Það getur tekið á þolinmæðina að hlýða á þá umræðu sem um þetta frumvarp hefur staðið hér síðustu klukkutímana. Það virðast oft og tíðum ekki mikil takmörk fyrir því hversu vítt um völl menn fara í umræðunni. Ég vil nefna ræðu síðasta ræðumanns, hv. þm. Sigmundar Ernis Rúnarssonar, sem dæmi um fleipur sem stjórnarliðar leyfa sér að fara með í umræðunni, að því er virðist að lítt ígrunduðu máli. Í þessu tilfelli var því sem kalla má frasapólitík beint að skuldsetningu sjávarútvegsins og þá var mjög hentugt að taka sem dæmi eitt tiltekið fyrirtæki austur á Eskifirði sem heitir Eskja. Það er full ástæða til að vara við málflutningi sem þessum, einfaldlega vegna þess að honum hefur oft verið beitt án innstæðu. Í þessu tilfelli er það rangt sem haldið var fram, þetta er sama tuggan og oft og tíðum hefur verið japlað á og er orðin allþreytt. Þar var talað um að skuldsetning þessa fyrirtækis væri að ríða því á slig.

Ég veit ekki til þess að hv. þingmaður hafi milliliðalaust aflað sér upplýsinga frá umræddu fyrirtæki en hann hefði betur gert það. Ég hef gert það og þær liggja raunar fyrir víðar. Þetta fyrirtæki greiddi næsthæstu meðallaunin á landinu 2009 samkvæmt úttekt Frjálsrar verslunar. Varðandi skuldastöðuna liggur fyrir að það tekur fyrirtækið innan við fimm ár að greiða upp skuldir sínar, þ.e. ef það fær að starfa á þeim sama grunni og það hefur verið undanfarin ár. Það kann vel að vera að þessar áhyggjur hv. þingmanns séu við það að ríða honum sjálfum á slig, einfaldlega vegna þess að hann er farinn að gera sér grein fyrir því hvaða áhrif það frumvarp sem hann er stuðningsmaður við sem þingmaður í öðrum stjórnarflokknum kann að hafa á afkomu fyrirtækja sem þessara.

Ég vil gera að umtalsefni í þessu sambandi að á Austurlandi er einhver öflugasta uppsjávarútgerð á landinu og hún hefur skilað þjóðarbúinu gríðarlegum hagnaði. Þar hafa fyrirtæki sérhæft sig í veiðum og vinnslu uppsjávartegunda sérstaklega þó að þorskveiði og annar bolfiskur sé þessu svæði líka mjög mikilvæg.

Í 2. gr. þess frumvarps sem hér liggur fyrir er gert ráð fyrir því að fyrirtæki á þessu svæði, í Fjarðabyggð, á Eskifirði, Fáskrúðsfirði og Norðfirði, leggi meira til þjóðarinnar en fyrirtæki á öðrum svæðum. Raunar er það mjög merkilegt að ef maður horfir líka til uppsjávarvinkilsins, ef maður getur sagt sem svo, í þessu frumvarpi er ætlunin sú að kvótar þeirra renni inn í pottana svokölluðu, ákveðinn stabbi. Sömuleiðis er gert ráð fyrir því að látið verði renna af veiðiheimildum í lögsögu annarra ríkja inn í potta til alls konar aðgerða. Þetta er ekki síst einkennilegt í því ljósi að af loðnukvótanum er þegar búið að taka á bilinu 30–50 þús. tonn og skerða heimildir þessara fyrirtækja. Til hvers? Jú, til þess að við getum greitt Norðmönnum og Færeyingum fyrir veiðiheimildir í þeirra lögsögu. Til viðbótar þessari skerðingu á svo að skerða sömu fyrirtæki eftir öðrum leiðum. Þetta er ólíðandi vinnulag og ég hvet hv. þingmenn til að draga til baka þá tillögu sem þarna liggur fyrir.

Undir lokin vil ég nefna þá þverstæðu sem í málflutningnum er, að hér leggur ríkisstjórn og stjórnarmeirihluti Samfylkingar og Vinstri grænna fram annað frumvarp á þingi sem miðar við það að taka upp losunarkerfi Evrópusambandsins fyrir gróðurhúsalofttegundir. Á hverju byggir það? Engu öðru en losunarkvótum sem er úthlutað ókeypis til starfandi fyrirtækja. Það er gert ráð fyrir frjálsri verslun með þessa sömu kvóta. Þetta er í grundvallaratriðum sama skipulag á úthlutun takmarkaðra gæða (Forseti hringir.) og þau vilja afnema við fiskveiðistjórn landsins.