139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[22:19]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ósammála hæstv. sjávarútvegsráðherra hvað þetta varðar, að þetta sé ákveðin trygging, og sérstaklega þegar við lítum á margbreyttan sjávarútveg er þetta engin trygging að hafa einhvern nýtingarsamning til 15 ára. Gott og vel. Við getum rætt það síðar. Varðandi ráðherraræðið — ég væri sammála hæstv. ráðherra ef við værum að tala um óbreytt kerfi, óbreytt magn, en við erum að sjá fram á það, miðað við þetta frumvarp, að pottarnir munu vaxa þannig að innan skamms tíma er hugsanlegt að ráðherra verði sjálfur að deila og drottna yfir 100 þús. ígildum. Ég tel það vera ráðherraræði. Ég tel að það verði aukin miðstýring í staðinn fyrir að markaðurinn ráði en það var verið að kalla eftir því að markaðurinn ráði og viðskiptalegar forsendur stjórni sjávarútveginum, m.a. í máli hv. þingmanna í Samfylkingunni hér fyrr í kvöld.

Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra um kvótaþingið, en eins og það er sett fram í þeim frumvörpum sem við erum kannski oft og tíðum að ræða samhliða er rætt um að færa öll viðskipti í miðlægt kerfi. Gamla kerfið var ætlað sem sátt milli sjómanna og útgerðarmanna en nýja kvótaþingið er og verður fyrst og fremst útboðskerfi byggt á leigu og það er ríkið eitt sem er leigusali. Það er því engin dýnamík í þessum markaði eða á neinn hátt sambærilegt gamla kvótaþinginu. Er hann sammála mér um það? Og er hann sammála mér að strandveiðarnar, eins og þær eru byggðar upp, séu ólympískar veiðar? Veiðitíminn er að styttast og menn hafa verið að moka upp fiskinum á skömmum tíma, fyrir utan það að þetta getur verið vond meðferð á afla, sem ég heyri að menn eru nokkuð almennt að benda á. Þýðir þetta ekki að það verði aukinn þrýstingur á hin pólitísku öfl að menn fái þá einfaldlega (Forseti hringir.) meiru úthlutað? Eru þetta ólympískar veiðar eða ekki?