139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[22:27]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni fyrir að koma með þessar spurningar sem eru líka kannski nokkuð ný nálgun í þá mikilvægu umræðu sem farið hefur fram í tengslum við sjávarútveginn. Um leið undirstrika þær, sérstaklega kannski sú fyrri sem tengist ferðaþjónustunni, hve sjávarútvegurinn hefur víða áhrif. Það er eins og ríkisstjórnin gleymi því oft og tíðum, sérstaklega þegar maður hlustar á þá fáu, reyndar, þingmenn sem hafa komið inn í þessa umræðu af hálfu ríkisstjórnarinnar. Við eigum að líta á sjávarútveginn sem slíkan ekki bara út frá hinum þröngu hagsmunum um veiði og vinnslu heldur miklu frekar sem drifkraft fyrir nýsköpun og sprotafyrirtæki, m.a. innan ferðaþjónustunnar.

Ég vil benda hv. þingmanni á að á þeim tíma þegar við sjálfstæðismenn vorum í ríkisstjórn byrjaði þessi vaxtarsproti að aukast, til að mynda á Tálknafirði þar sem menn fóru að stunda frístundaveiðar og við höfum verið að fá ferðamenn þangað til að stunda þær veiðar.

Ég vil reyndar draga það fram að ég er ávallt andsnúin því að hafa undanþágur og í rauninni snúast þessar spurningar hv. þingmanns báðar um undanþágur frá kerfinu. Ég held t.d. að við höfum komist í ákveðnar ógöngur í þessu annars ágæta kerfi af því að við vorum alltaf að reyna að búa til einhverjar undanþágur, koma til móts við vissulega ákveðnar gagnrýnisraddir í tengslum við landsbyggðina og þess vegna var m.a. farið af stað í breytingar á krókaaflamarkinu og það var farið af stað með byggðakvótann. Ég get að mörgu leyti tekið undir þær vangaveltur og pælingar sem framsóknarmenn hafa verið með um frístundaþjónustuna og frístundaveiðarnar. Ég held að það sé gott innlegg en það má ekki verða til þess að menn fari að rugga bátnum á ný, að finna enn og aftur fleiri glufur á kerfinu. Við höfum nóga og í rauninni (Forseti hringir.) vonda reynslu af slíku.