139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[22:34]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég og hv. þm. Pétur Blöndal höfum í meginatriðum valið okkur þá lífsskoðun og þann flokk sem við tilheyrum bæði út frá því að við viljum frekar hafa kerfið einfalt, búa til einfaldan ramma þannig að við veitum einstaklingum og fyrirtækjum sem mest svigrúm og möguleika til að nýta og njóta sinna eigin krafta. Það mun skila arði og skilar þegar arði fyrir allt samfélagið. Varðandi síðari spurningu hv. þingmanns er ég frekar andsnúin því að fara alltaf í það sem ég hef kallað stagbætt kerfi. Við sjálfstæðismenn þurft að sitja undir þeim ásökunum að við höfum alltaf reynt að standa vörð um kvótakerfið og ekki viljað breyta því frá upphafi. Það er kolrangt. Við fórum m.a. af stað í auðlindanefnd upp úr aldamótunum síðustu og settum á veiðileyfagjald í samvinnu og sátt við þá sem þá áttu hlut að máli. Við settum af stað byggðakvóta. Það er hægt að gagnrýna hann en hann var samt tilraun til þess að koma til móts við helstu gagnrýnisraddirnar.

Ég er sammála því að strandveiðarnar séu góðra gjalda verðar. Það er ákveðin rómantísk hugsun á bak við þær en þær eru og verða ólympískar veiðar. Ég hef verið að draga það fram. Menn munu reyna að veiða meira á sem skemmstum tíma, það getur farið allt niður í tvo tíma eða tvo daga hverju sinni. Það mun síðan kalla á þrýsting á stjórnmálamenn um að bæta við. Þá verður það tekið af einhverjum öðrum.

Varðandi framsalið hefur hv. þingmaður margoft komið inn á hvað það er mikilvægt. Já, framsalið er mjög mikilvægt. Ég mun koma betur að því í síðara andsvari mínu og fara yfir það sem hv. þingmaður sagði. Það er algjörlega fullkomið framsal, takmarkalaust, gegn því að allur fiskur fari á markað. Það er umræða sem ég bíð með þar til í síðara andsvari mínu.