139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[22:39]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum nú sjávarútvegsmálin. Því miður hefur mér ekki gefist kostur á að taka nægan þátt í umræðunni en ég hef fylgst með henni annars staðar úr þinghúsinu. Ég verð nú að taka undir það með hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur um að það er hreint með ólíkindum að þeir ráðherrar sem standa að þessu frumvarpi, vegna þess að það er ekki hægt að segja að hæstv. sjávarútvegsráðherra beri einn ábyrgð á því — hann hefur eins og allir vita staðið í ströngum bæði innan flokks og milli stjórnarflokkanna — að reyna að klambra öllum þessum frumvörpum saman. Það er talað um litla og stóra frumvarpið. Það er talað um Samfylkingar- og Vinstri græna-frumvarpið og það er ljóst að um þau er ekki bara ágreiningur á milli stjórnar og stjórnarandstöðu, það eru skiptar skoðanir milli ríkisstjórnarflokkanna. Og jafnvel þótt það sé samkvæmt fréttum í kvöld það nýjasta í tískustraumum ríkisstjórna að vera ósammála um alla hluti verð ég að lýsa því sem skoðun minni að það er ekki þessu þjóðfélagi til framdráttar. Það er ekki það sem íslenskur sjávarútvegur á skilið að farið sé af stað með breytingar í farteskinu eins og þessi ríkisstjórn hefur lagt fram í þessum tveimur frumvörpum, án þess að bera þær undir kóng eða prest frá því að sáttanefndin lauk störfum.

Að hæstv. forsætisráðherra hafi ekki tekið þátt í umræðunni finnst mér algjörlega með ólíkindum. Hún tekur þátt í umræðum um sjávarútvegsmál í vernduðu umhverfi, eins og hv. þm. Íris Róbertsdóttir sagði fyrr í umræðunni. Hún slær sér á brjóst á flokksfundum Samfylkingarinnar og byrjar þar að uppnefna fólk, uppnefna heila atvinnugrein og þá sem hana stunda. Hún uppnefnir okkur sem erum ósammála ráðherranum í skoðunum á málinu, að við sjálfstæðismenn hljótum að vera sérhagsmunagæsluflokkur. Samkvæmt ræðu hæstv. forsætisráðherra í verndaða umhverfinu á flokksþingi Samfylkingarinnar get ég sem hér stend væntanlega ekki staðið hér og lýst skoðun minni á fiskveiðistjórnarkerfinu án þess að að ég sé handbendi einhvers.

Því vil ég mótmæla. Sjávarútvegurinn í landinu á miklu meira skilið en að svona sé talað til greinarinnar og um greinina og það er hreint út sagt ákaflega sorglegt að fylgjast með hvernig forsætisráðherra þjóðarinnar notar hvert tækifæri sem hún getur til þess að splundra þjóðinni í frumeindir í hverju málinu á fætur öðru.

Minna frumvarpið er hér til umræðu. Ég verð að lýsa þeirri skoðun minni strax að ég á mjög erfitt með að aðgreina þessi tvö frumvörp. Ég á mjög erfitt með að skilja þau í sundur í litla og stóra frumvarpið vegna þess að í mínum huga er það frumvarp sem við ræðum undanfari að kerfisbreytingunni sem hinu frumvarpinu, stóra frumvarpinu, er ætlað að fara í gegnum. Litla frumvarpinu er ætlað að ryðja brautina. Það er eins konar prufukeyrsla á breytingunni. Mér hefði fundist það mun eðlilegra verklag að við hefðum þá tekið alla kerfisbreytinguna í einu lagi og tekist á um hana í staðinn fyrir að smámjatla þetta.

Mig langar líka að velta fyrir mér þeirri grundvallarspurningu sem enn er ósvarað eftir alla þessa umræðu: Hverju verðum við bættari með þessari kerfisbreytingu? Hvað á öll þessi breyting að bæta? Ætlum við að bæta hag íslensks sjávarútvegs, íslensks samfélags, sjómanna, fiskvinnslunnar, lítilla eða stórra sjávarútvegsfyrirtækja? Ætlum við að auka arðsemi af greininni? Ætlum við að fjölga fiskunum í sjónum? Nei. (Gripið fram í.) Ég tel ekki að frumvörpin tvö bæti neitt af þessu. Ég segi það ekki út í loftið því að við í þingflokki Sjálfstæðisflokksins höfum lagt mikla vinnu í að skoða þessi frumvörp, bæði út frá því að þau komu fram og við höfum fengið til okkar aðila úr öllum geirum sjávarútvegsins. Við höfum fengið til okkar útgerðarmenn, við höfum fengið til okkar smábátaeigendur, við höfum fengið til okkar sjómenn, farmenn, fiskvinnsluna. Við höfum fengið til okkar hagfræðinga, við höfum leitað ráða hjá lögfræðingum. Við höfum spurt sömu spurningarinnar og fengið sömu svörin; öllum þeim aðilum sem við höfum talað við ber saman um að þessi frumvörp feli í sér aðför að greininni. Þau séu illa hugsuð, þau muni hafa í för með sér afleiðingar sem muni bitna á öllum stigum framleiðslunnar og að þau muni skaða þjóðarhag.

Það eru stór orð frá fólki sem gerst þekkir til og ég leyfi mér að trúa að þessi frumvörp geti valdið verri umgengni um fiskstofnana vegna þess að þau muni leiða til þess að menn muni sækja fastar á skemmri tíma þann fisk sem er í sjónum. Þessi frumvörp eru til þess fallin að kippa fótunum undan efnahag smærri og meðalstórra fyrirtækja með því að taka í burtu framsal. Með því að banna veðsetningar er verið að gera nýliðun, sem ríkisstjórnin talar um að sé æðsta markmið breytinganna, algjörlega ómögulega. Hvaða nýliði fer inn í kerfið ef það er ekki hægt að fá veðsetningar á þeim atvinnutækjum sem maður leggur fram þegar maður byrjar? Hver ætlar að kaupa sér bát — ef við horfum bara á strandveiðarnar? Bátarnir þar eru orðnir þau verðmæti. Maður kaupir sér bát og fer út að róa í strandveiðikerfinu, en hvernig kaupir maður sér bát? Maður þarf að fá lán fyrir honum og maður þarf að geta fengið traust þeirrar lánastofnunar sem maður ætlar að skipta við. Það verða þá væntanlega þeir sem hafa fullar hendur fjár, þeir sem hafa selt sig út úr greininni. Það er nú eitt vandamálið sem frumvörpunum er ætlað að leysa, en það er þá gert með því að hegna þeim sem fyrir eru í greininni, sem farið hafa eftir þeim lögum sem samþykkt voru og einungis tveir þingmenn sem enn sitja á Alþingi stóðu að því að samþykkja. Það eru hæstv. forsætisráðherra, sem ég endurtek að hefur ekki tekið þátt í þessari umræðu, og hæstv. fjármálaráðherra, sem ég veit ekki til að hafi stigið í pontu í þessari umræðu (Gripið fram í: Og er ekki staddur í húsinu.) og er ekki staddur í húsinu, fæ ég ábendingu um utan úr sal. Þessir tveir hæstv. ráðherrar, þáverandi hv. þingmenn, samþykktu lög og uppnefna nú það fólk sem farið hefur eftir þeim lögum alla tíð. Þessir hæstv. ráðherrar vilja breyta lögunum vegna þess að fólk hefur farið eftir þeim lögum sem þau settu. Ég segi: Mér finnst þetta verklag algerlega til skammar.

Nú líður tíminn ákaflega hratt, herra forseti. Mig langar þó að ræða aðeins þá mýtu sem alltaf er haldið fram, að við sjálfstæðismenn viljum ekki gera neinar breytingar. Við erum alltaf ásökuð um að vilja halda óbreyttu kerfi, séum með þvergirðingshátt og viljum ekki breyta einu eða neinu. Það er rangt. Við tókum þátt í starfi sáttanefndarinnar af fullum heilindum. Við stóðum að þeirri niðurstöðu sem þar fékkst sem 16 af 18 nefndarmönnum stóðu einhuga að. Hvaða breytingar vildum við gera, og vorum þar með sammála 15 öðrum fulltrúum? Við vildum og leggjum m.a. áherslu á eftirfarandi atriði:

Að nýtingarsamningarnir verði til langs tíma.

Við féllumst á það sjónarmið að gera ætti nýtingarsamninga um auðlindina, en að þeir yrðu gerðir til langs tíma rétt eins og gilda mun um aðra nýtingu á auðlindum svo sem eins og í orkuauðlindum sem ekki eru í einkaeigu.

Í frumvarpi sjávarútvegsráðherra er miðað við 15 ára samningstíma og möguleika á átta ára framlengingu. (RM: Hvert er þá vandamálið?) Ég vil lengri tíma en það. Það var það sem rætt var um í sáttanefndinni. Það var aðeins einn fulltrúi, eftir því sem mér skilst, sem ræddi um 15 ára nýtingartíma. Það var rætt um 15–65 ár. Ég tel ekki að hv. þm. Róbert Marshall mundi fella sig við 65 árin, en ég get upplýst að mér þykja 15 ár — sérstaklega þegar um er að ræða endurskoðun eftir átta ár og viðkomandi fyrirtæki hefur enga vissu fyrir því að fá framlengingu þótt það fari að öllum lögum og reglum. Það kallar á óstöðugleika og er ekki til þess fallið að auka arðsemi, hagræðingu eða til að bæta nýtingu fiskstofnana. Það hefur enginn sýnt fram á það.

Í öðru lagi féllumst við á það og stóðum að þeirri samþykkt að lítill hluti af heildarúthlutun aflamarksins fari til ráðstöfunar í byggðalegum, félagslegum og atvinnulegum tilgangi, en það á aldrei að vera undirstaðan í kerfinu. Það á að vera lítill hluti. Það á að vera svigrúm sem kemur til móts við aðstæður sem upp geta komið. En í frumvarpi sjávarútvegsráðherra er gert ráð fyrir stórum pottum sem ráðherra hefur heimild til að úthluta. Það er algjörlega með ólíkindum að í þessum frumvörpum kemur orðið „ráðherra“ oftar fyrir en nokkuð annað orð í frumvarpinu, það var eitthvað vel á annað hundrað skipta, á meðan orðið „fiskvinnsla“ kemur einu sinni fyrir. Það þótti mér fróðlegt.

Við vorum einnig samþykk því að auðlindagjald, sem við þekkjum reyndar vegna þess að það hefur verið við lýði um nokkurra ára skeið og varð til í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar, renni í ríkissjóð. Við erum líka sammála fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins sem segir að ábendingar um möguleg stjórnarskrárbrot hafi verið hunsaðar við gerð frumvarpsins. Það er nú ekkert svo lítið. Ég vann í fjármálaráðuneytinu sem aðstoðarmaður ráðherra í sjö ár. Ég man aldrei eftir því að hafa séð svona kostnaðarumsögn við stjórnarfrumvarp eða nokkurt annað frumvarp frá fjármálaráðuneytinu. Það er hreint með ólíkindum að fjárlagaskrifstofa ráðherra Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs snupri og slái á puttana á sjávarútvegsráðherra Vinstri grænna og ríkisstjórninni allri, vegna þess að þetta er náttúrlega sameiginlegt frumvarp.

Það finnst fólki væntanlega ekki skipta máli. Og þó. Það eru gerðir ýmsir fyrirvarar innan þingflokkanna við frumvörpin. Ég verð bara að vona að okkur takist að ná samkomulagi á Alþingi með hag greinarinnar og íslensku þjóðarinnar fyrir brjósti, með virðingu fyrir þeim sem stunda þennan atvinnurekstur. Að við náum að gera um það samkomulag að flýta okkur hægt, vanda okkur og reyna að læra af því sem gerst hefur á undanförnum árum. Talað er um rannsóknarskýrslu Alþingis á hátíðarstundum. Ég er ekki viss um að rannsóknarskýrsla Alþingis og nefndin hefði kvittað upp á þau vinnubrögð sem hér eru viðhöfð. Allir hagsmunaaðilar, allir sérfræðingar, allir þeir sem ég hef rætt þessi frumvörp við og lesið umsagnir frá, eru andvígir þeim, meira að segja mjög andvígir. Ég óska þess því að við getum vísað þessum frumvörpum lengst út í hafsauga.