139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[23:01]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel mikilvægt í öllum málum sem menn taka sér fyrir hendur, hvort það er gagnvart Evrópusambandinu, fiskveiðistjórn eða hvað það nú er, að þeir viti hvert þeir ætla sér að fara. Það er það fyrsta. Mér finnst nefnilega eins og hv. þingmanni að stjórnarliðar hafi ekki gert sér grein fyrir því hvert þeir eru að fara. Sumir hafa rómantískar hugmyndir um trillukarlinn sem fer að veiða. Er markmiðið að gera allan sjávarútveginn að trillukarlaútgerð eða hvað eru menn að fara?

Hv. þingmann gat um þykkjuna þegar við sjálfstæðismenn erum gerð að handbendi einhvers kvótagreifa. Ég verð að gagnrýna það mjög hart því að við tókum upp veiðileyfagjaldið, við unnum í sáttanefndinni og svo hef ég auk þess lagt fram tvö frumvörp persónulega, annars vegar að afnema sjómannaafsláttinn (Forseti hringir.) og hins vegar að dreifa kvótanum meðal þjóðarinnar. Mig langar að spyrja hvort hv. þingmaður hafi skoðað það.