139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[23:04]
Horfa

Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég minni hv. þingmann á þá staðreynd að eftir hina svokölluðu sáttanefnd og áður en hún var stofnuð voru báðir stjórnarflokkarnir með fyrningarleið á stefnuskrá sinni. En eftir að störfum sáttanefndarinnar lauk var boðuð önnur stefna sem grundvallaðist á vinnu sáttanefndarinnar. Er það ekki að koma til móts við þá sem eru ósammála? Er ekki einhver sáttarhugur í því að mati hv. þingmanns?

Ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir okkur á þessum vettvangi að horfa á það sem við erum sammála um og reyna að ná einhvers konar samstöðu um það. Mig langar að spyrja hv. þingmann, af því að hún kom inn á þær breytingar sem Sjálfstæðisflokkurinn vill gera á kerfinu, á hvaða vettvangi hún sjái fyrir sér að sú vinna fari fram ef hún boðar samstarfsmöguleika á sama tíma og hún vill að frumvörpin verði dregin til baka. Ætlar hv. þingmaður að heimsækja (Forseti hringir.) hæstv. sjávarútvegsráðherra í þessu tilviki?