139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[23:07]
Horfa

Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hér gerast þau undur og stórmerki að hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir er orðin sammála fyrningarleiðinni og vill fyrna kvótann en bara á lengri tíma. Hún lýsir þessari leið hérna sem fyrningarleiðinni bakdyramegin. Hún er sammála nýtingarsamningum en ekki á 15 árum, vill gera þá til lengri tíma. Ef við hefðum komið fram með fyrningarleiðina og ekki haft hana 20 ár hefði hv. þingmaður verið sammála henni. Það er ánægjulegt.

Ég ítreka spurningu mína. Ef hv. þingmaður vill draga þessi tvö frumvörp til baka, á hvaða vettvangi á samstarf stjórnmálaflokkanna og sameiginleg niðurstaða að vera? Er ekki eðlilegt að þessi mál séu rædd í sölum þingsins og í hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd í anda þeirrar þróunar sem verið hefur í þinginu? Þingmenn bæði stjórnar og stjórnarandstöðu hafa gert stórar breytingar á frumvörpum ríkisstjórnarinnar sem er mjög jákvæð þróun að mínu mati.