139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[23:09]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ágætisræðu. Í henni kom m.a. fram að stefna Sjálfstæðisflokksins væri að vera með veiðigjald eins og hefur verið og aðrir þingmenn hafa líka ítrekað afstöðu flokksins gagnvart auðlindaákvæðum.

Ég mundi gjarnan vilja heyra betur frá hv. þingmanni hvort ekki sé rétt skilið hjá mér að Sjálfstæðisflokkurinn sé sammála samningaleiðinni og hvað varðar frumvarpið sem er til umræðu virtist koma fram í ræðu hv. þingmanns að hún sæi ekki mikið vit í því. Er hv. þingmaður ósammála samþingmönnum sínum, hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni og hv. þm. Ásbirni Óttarssyni, sem lögðu fram frumvarp sem er nánast samhljóða 2. gr. um breytingar á fyrirkomulagi tilfærslna innan kerfisins vegna (Forseti hringir.) ýmissa jöfnunaraðgerða?