139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[23:23]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla aðeins að fara yfir lagaskrifstofumálið sem ég lagði fram ásamt fleiri þingmönnum og liggur nú sem þingskjal í þinginu. Viðbrögð hæstv. forsætisráðherra við því frumvarpi voru þau að stofna lagaskrifstofu í Stjórnarráðinu sem er staðsett í forsætisráðuneytinu — undir framkvæmdarvaldinu. Eftir því sem ég kemst næst starfa þar þrír starfsmenn en ef þessi frumvörp hafa farið í gegnum þá skrifstofu er alveg ljóst að við þurfum að taka þetta vald til okkar.

Varðandi þetta með Evrópusambandsumsóknina er skýrt kveðið á um það í 32. gr. stærra frumvarpsins að verði það frumvarp að lögum falla þau lög úr gildi eftir 23 ár frá gildistöku þeirra og í umsögn um 32. gr. stendur:

„Greinin þarfnast ekki skýringa.“

Það er alveg augljóst að það er verið að skilja sjávarútveginn eftir í miklu uppnámi (Forseti hringir.) verði frumvarpið að lögum og þá er fellur þetta alveg inn í 20/20-áætlun Evrópusambandsins. Við höfum 20 ár til að aðlaga (Forseti hringir.) og fyrna niður veiðiheimildirnar (Forseti hringir.) og þar að auki er þetta mjög sambærilegt því nýja kerfi sem Evrópusambandið setur.