139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[23:26]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fordæmdi það mjög í ræðu minni fyrr í dag og hafði þar uppi þau orð að ég væri algjörlega á móti því lagasetningarafsali sem kemur fram í frumvarpi eftir frumvarpi frá þessari ríkisstjórn. Það kemur varla frumvarp inn í þingið öðruvísi en með ákvæði um að ráðherra fái reglugerðarheimild til að framkvæma lögin eins og honum hentar. (Gripið fram í.)

Nú er þessu ekki sérstaklega beint til hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra því að ég met hann mjög mikils en ég er að vísa í öll hin frumvörpin sem koma fram frá öllum hinum ráðherrunum. Þetta er þó hluti af þessum kratisma sem tröllríður stjórnsýslunni. Fyrirmyndin er sótt til Evrópusambandsins því að þar er lagasetningarvaldið framselt eins og verið er að gera hér með reglugerðum, tilskipunum og öðru þannig að við stöndum uppi með að það eru (Forseti hringir.) embættismenn sem setja lögin.