139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[23:33]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka kærlega fyrir að þessi uppeldistími hafi farið fram í andsvörum. Ég þakka hv. þm. Róberti Marshall kærlega fyrir að reyna að aga mig í ræðustól og reyna að ritskoða það sem ég segi.

Mig langar að benda þingmanninum á að í stóra frumvarpinu kemur fram að þau lög eiga að falla úr gildi eftir 23 ár og þegar greinargerðin er lesin stendur um 32. gr. að greinin þarfnist ekki skýringar. Hvað ætlar Samfylkingin að láta taka við árið 2034 þegar þau lög renna úr gildi? Hvað á að taka þar við? Jú, óskin um að komast inn í Evrópusambandið verður þá að líkindum, að mati Samfylkingarinnar, sú að við verðum komin þar inn og þá þarf náttúrlega ekki að skapa neina lagaumgjörð um íslenskan sjávarútveg eftir árið 2034 vegna þess að þá falla lögin úr gildi. Þetta er hreint og klárt. (Forseti hringir.) Ég bið svo þingmanninn um að beita uppeldisaðferðum sínum á aðra þingmenn en mig héðan í frá. (Gripið fram í: Um hvað ertu að tala?) (VigH: Lestu frumvarpið.)