139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[23:34]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar til að ræða pínulítið betur við hv. þingmann einmitt um þetta atriði, 32. gr. Í síðara frumvarpinu, sem sumir kalla samfylkingarfrumvarpið, stendur og ég ætla að lesa það enn einu sinni, með leyfi forseta:

„Lög þessi öðlast þegar gildi, en jafnframt falla úr gildi lög nr. 116/2006, með síðari breytingum. Lög þessi skulu hafa gildi í 23 ár frá gildistöku þeirra.“

Nú er það svo að við erum búin að ræða í 660 ræðum í 22 tíma um fyrra frumvarpið. Seinna frumvarpið, ef það verður samþykkt, tekur fyrra frumvarpið úr gildi. Svo er annað, þessi 23 ár, það væri skemmtilegt að fá einhverja smávitneskju um hvaðan í ósköpunum þetta kemur en ég fullyrði og það er mín skoðun að þetta hefur ekkert gildi, ekki neitt, vegna þess að í stjórnarskránni stendur í 2. gr.:

„Alþingi og forseti Íslands fara saman með löggjafarvaldið.“

Eitt Alþingi (Forseti hringir.) getur ekki afnumið löggjafarvald seinna Alþingis.