139. löggjafarþing — 139. fundur,  2. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[00:00]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Nú vil ég benda á að ég bað um orðið í tíma en tel ástæðu til að vekja athygli á því að nú er klukkan orðin 12 og rúmlega það og uppstigningardagur hafinn. Ég trúi því ekki að óreyndu að virðulegur forseti ætli að fara á svig við það samkomulag sem var gert um að þingfundir stæði ekki lengur en þingsköp gerðu ráð fyrir, allt til miðnættis, og ætli að halda áfram umræðu í þinginu fram á nótt á uppstigningardegi.

Nú er hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að vísu mættur í salinn en við höldum væntanlega ekki bara ræður fyrir hæstv. ráðherra. Við hljótum að halda ræður til að almenningur geti hlýtt á það sem við höfum fram að færa um málin, rökstuðning okkar. Finnst virðulegum forseta einhver bragur á því að við séum að ræða mál inn í nóttina þegar fólk er farið að sofa á uppstigningardegi? Er það við hæfi að mati virðulegs forseta að almenningur hafi ekki tækifæri til að fylgjast með umræðum um þetta mikilvæga mál?