139. löggjafarþing — 139. fundur,  2. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[00:19]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka formanni Framsóknarflokksins fyrir aldeilis prýðilega ræðu þar sem hann fór vel yfir það hvernig sjávarútvegsmálin hafa þróast og ekki síst það hvernig hann dró fram að þegar núverandi fiskveiðistjórnarkerfi var sett á laggirnar var það umdeilt. Það var að sjálfsögðu erfitt fyrir margra hluta sakir og auðvitað greindi menn á um það hvernig ætti að skipta takmarkaðri auðlind. Þeir sem höfðu stundað útgerð lengi vel áttuðu sig ekki síst á því að þeir gátu ekki fiskað lengur. Auðvitað kallaði það á mikla umræðu og sársaukafulla hagræðingu innan greinarinnar sem mér finnst allt of margir hafa gleymt í dag.

Það getur vel verið að það sé hægt að gagnrýna hvernig þáverandi stjórnvöld stóðu að breytingunum en að mínu mati voru þær nauðsynlegar, ekki síst vegna þess að fiskstofnarnir voru á niðurleið. Sumir segja að þeir hafi verið að hruni komnir þannig að það þurfti að taka ákvörðun um framtíð fiskveiða. Það var tekin ákvörðun um þetta kerfi sem við búum við í dag sem hefur tekið (Forseti hringir.) margháttuðum breytingum.

Ég spyr hv. þingmann: Telur hann hægt að ná sátt? Er styttra á milli manna en forsætisráðherra, ekki síst, vill vera láta?