139. löggjafarþing — 139. fundur,  2. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[00:22]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég er sammála því sem hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði í svari sínu. Ég held nákvæmlega að þetta sé málið, ég held að það sé styttra á milli manna en menn halda eða reynt er að telja mönnum trú um.

Niðurstaða sáttanefndarinnar liggur alveg ljós fyrir. Ef menn hafa hlustað á ræður hv. þingmanna í stjórnarliðinu eins og hv. þm. Magnúsar Orra Schrams fyrr í dag held ég að það sé raunverulega möguleiki á að reyna að skapa þessa eftirsóknarverðu sátt ef menn leggja sig fram.

Ég tel einfaldlega að ríkisstjórnin hafi með framlagningu þessara frumvarpa, þar sem hún setur allt upp í loft, ekki lagt sig nægilega fram, síst með tilliti til þess hver hinn raunverulegi vilji er innan stjórnarliðsins. Hinn raunverulegi vilji innan stjórnarliðsins er einfaldlega bara tvist og bast. Það er engin eining um þessi mál (Forseti hringir.) sem við höfum hér til umræðu, hvort sem það er hið svokallaða litla eða stóra frumvarp.