139. löggjafarþing — 139. fundur,  2. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[00:31]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni og formanni Framsóknarflokksins fyrir yfirgripsmikla ræðu. Það eru atriði sem ég vildi leggja áherslu á. Hv. þingmanni var tíðrætt um áherslur og niðurstöður endurskoðunarnefndarinnar sem skipuð var.

Eitt meginþemað þar var að styrkja stöðu sjávarbyggðanna og standa vörð um þær, það væri hluti af heildarhagsmunum, ekki aðeins sjávarútvegsins heldur þjóðarinnar allrar. Í því frumvarpi sem við ræðum er það einmitt meginmálið. Það er verið að styrkja stöðu strandveiðanna, það er verið að styrkja stöðu byggðatengdra aðgerða og við leggjum líka áherslu á að verði veiðigjald hækkað komi sú skipting (Forseti hringir.) líka til sjávarbyggðanna. Það er ein megináherslan í því frumvarpi sem hér er til umræðu, samhljóða (Forseti hringir.) þeim megináherslum sem voru í endurskoðunarnefndinni. (Forseti hringir.) Ég vildi heyra viðhorf hv. þingmanns til þessara grundvallaráherslna.