139. löggjafarþing — 139. fundur,  2. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[00:35]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við hæstv. ráðherra erum sammála um mikilvægi þess að styrkja byggðatengda þætti. Það er rétt sem hæstv. ráðherra nefnir að það eru ýmis samfélagsleg áhrif sem er ekki svo auðvelt að reikna með í hagkvæmnismati sem þó skipta verulegu máli hvernig sem á það er litið. En sú leið sem boðuð er í frumvörpum hæstv. ráðherra er hins vegar ekki til þess fallin að styrkja byggðirnar vegna þess að hún setur sjávarútveginn í uppnám alls staðar. Grunnþátturinn hlýtur að vera sá að skapa einhverja festu, einhverja vissu, þann möguleika að menn geti fjárfest í heimabyggð sinni, byggt upp og viti hvers sé að vænta á næsta ári og þarnæsta ári en ekki að það sé fullkomin óvissa eða þá að pólitískum ráðherra sé falið það vald að geta útdeilt gæðum til þeirra sem hann vill gleðja hverju sinni.