139. löggjafarþing — 139. fundur,  2. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[00:37]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það verður aldrei of oft ítrekað að það er verðmætasköpunin, ekki hvað síst í sjávarútvegi, sem er forsenda þess að við getum haldið úti því velferðarkerfi sem við viljum sjá í landinu. Þegar menn vega að grunnatvinnuvegi, þeim atvinnuvegi sem var einna líklegastur til þess að koma okkur áfram, draga aðrar atvinnugreinar áfram út úr efnahagsþrengingum, vega þeir um leið að velferð í landinu, að hlutum eins og heilbrigðisþjónustu og öðrum þáttum velferðarkerfisins. Þetta snýst nefnilega ekki bara um menn sem reka sjávarútvegsfyrirtækin eða stöðu þeirra, þetta snýst um hagsmuni hvers einasta Íslendings. Þegar kerfið, sem hv. þingmaður spyr um, er til þess fallið að skapa sem mest verðmæti fyrir hagkerfið erum við hvað best í stakk búin til að standa undir grunnþjónustu.