139. löggjafarþing — 139. fundur,  2. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[00:51]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ánægjulegt að heyra hv. þingmann lýsa því að hann telji raunhæfan möguleika á að ná víðtækri sátt um sjávarútvegsmálin vegna þess að ég held að mjög mikilvægt sé, ekki hvað síst í þessum málaflokki, að víðtæk sátt náist.

Mikið er reyndar talað um það af hálfu ríkisstjórnarinnar, sérstaklega þegar hún á í vandræðum með einhver af málum sínum, að hún leggi mikið kapp á að ná víðtækri sátt en því miður hefur það verið í langflestum tilvikum sýndarmennska. Hvað varðar sjávarútvegsmálin er því hins vegar haldið fram af hálfu ríkisstjórnarinnar að erfitt sé að nálgast Sjálfstæðisflokkinn vegna þess að hann sé í sérhagsmunagæslu í málinu. Telur hv. þingmaður að Sjálfstæðisflokkurinn sé í aðstöðu til þess að nálgast aðra það mikið að sátt geti náðst, jafnvel að hæstv. forsætisráðherra geti orðið þátttakandi í þeirri sátt? Eða er mikill munur innan stjórnarliðsins hvað varðar stefnu Sjálfstæðisflokksins annars vegar og svo stefnu stjórnarinnar og möguleika á að ná einhverri sameiginlegri lendingu þar? Gæti hv. þingmaður t.d. séð fyrir sér að einhverjir úr Samfylkingunni kynnu að vera tilbúnir að ná sameiginlegri sátt á meðan aðrir vilji fyrst og fremst nota málið til að viðhalda óeiningu, nota það í pólitískum tilgangi?