139. löggjafarþing — 139. fundur,  2. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[01:31]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi skiptingu í strandveiðinni var meðal annars höfð hliðsjón af byggðakvóta og ýmsu öðru þegar þessu var upphaflega úthlutað. Síðan var haldið áfram og aukið í og þessi skipting var eins og hv. þingmaður nefnir. Það þótti rétt að skipta landinu upp í svæði því að fiskurinn gefur sig misjafnlega á svæðunum, fyrst hér sunnan og suðvestanlands og síðan vestur og norður yfir, og þurftum við að taka mið af því.

Við óskuðum meðal annars eftir umsögn Landssambands smábátaeigenda í vetur um þessa skiptingu og ráð þess var að þessu yrði haldið svona. Þetta er sjálfsagt alltaf hægt að endurskoða en það er ekki séð fyrir hversu margir bátar fara á hvert svæði, heldur er þessu skipt og síðan sækja bátarnir um leyfi.

Ég tel mjög mikilvægt að það sé tryggt að strandveiðin fái að dreifast um landið og að öll landsvæði hafi þar aðgang að en ef það kemur rökstuddur vilji fyrir því að þessu sé dreift og skipt öðruvísi er sjálfsagt að fara eftir því. (Forseti hringir.) Þetta voru annars þau ráð sem ráðherra studdist við þegar þetta var gert.