139. löggjafarþing — 139. fundur,  2. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[01:42]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmanni er svo sem vorkunn í þessum efnum en ég bendi á að í (Gripið fram í.) þessari umsögn fjármálaráðuneytisins er þetta hvergi rökstutt. (Gripið fram í: Víst.) Þess er náttúrlega ekki að vænta að hv. þingmaður geti neitt frekar rökstutt það, en ég benti á að við skyldum þá bara taka fjárlögin og athuga hvernig þau mismuna fólki eftir búsetu. Við skulum taka raforkukostnað fólks og sjá hvernig því er mismunað eftir búsetu. Það er þá einn af grunnþáttum þess að jafnræði sé í landinu. Við skulum taka flutningskostnað á aðföngum og (Gripið fram í: … markaðar tekjur.) útflutningi. Já, það eru markaðar tekjur, en hvert renna þær? Jú, þær eru líka sérmerktar. Þessi ákvæði eru víða (Forseti hringir.) en það er ágætt að taka hér pólitíska umræðu um stöðu landsbyggðarinnar og hvernig hún hefur orðið úti af hálfu stjórnvalda hvað þetta varðar. Þetta frumvarp er til þess (Forseti hringir.) að styðja við og koma til móts við þau sjónarmið.