139. löggjafarþing — 139. fundur,  2. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[01:45]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þessi skipting í strandveiðinni í landsvæði var upphaflega sett til þess að tryggja ákveðna dreifingu og möguleika allt í kringum landið en ekki bara til þess að sótt yrði frá einum landshluta. Þetta er fyrst og fremst gert til að mæta ákveðnum einstaklingsrétti í þessum efnum. Ef svæðaskiptingin þykir eitthvað ósanngjörn á þann veg að menn sjái annað betra er það í sjálfu sér ekki fast í hendi af minni hálfu, en hún var sett á í upphafi í þeim tilgangi að jafna rétt manna. Reyndar hefur henni aðeins verið hnikað til, það er rétt, en ef menn sjá eitthvað betra í því er alltaf hægt að breyta því en við látum það ganga a.m.k. þetta árið með þessum hætti.

Varðandi það að skrá hver skuli vera eigandi fiskiskips og hann skuli vera lögskráður á skipið er það alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að þarna getur verið vandi á höndum. Markmiðið er að þessi leyfi séu einstaklingsbundin, að það sé einstaklingurinn sem fái rétt til veiða með þessum hætti. Það má vel vera og ágætt ef hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd vill skoða hvort það eigi t.d. að binda leyfið enn þá fastar við persónur, taka út lögaðila o.s.frv. Það á fyrst og fremst að vera tengt persónulegum rétti til að stunda sjó með þeim hætti sem ákvæðin um strandveiðar segja til um, (Forseti hringir.) það er ekki hugsað sem útgerðarform með fleiri báta í eigu sama aðila. (Forseti hringir.) En það má vel vera að það megi finna aðra og betri leið í þessu, frú forseti.