139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[10:32]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi á þskj. 1475 sem er 827. mál þessa þings. Um er að ræða frumvarp til nýrra laga um stjórn fiskveiða.

Frumvarp þetta á sér aðdraganda í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna frá því í maí 2009 og starfi starfshóps um endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða en að því starfi komu fulltrúar alla stjórnmálaflokka á Alþingi, aðilar í atvinnugreininni og fleiri sem tengdust sjávarútvegi. Sá hópur starfaði undir forustu Guðbjarts Hannessonar.

Hópurinn skilaði af sér skýrslu í september 2009 og síðan þá hafa þingmenn og ráðherrar ríkisstjórnarinnar komið að málinu ásamt embættismönnum ráðuneytisins en frumvarpið er samið í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu.

Frumvarpið hefur í för með sér grundvallarbreytingar í stjórn fiskveiða en gætt er meðalhófs í allri tillögugerð og tekið tillit til mismunandi sjónarmiða í þessum efnum. Frumvarpi byggir einnig á hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar hvað varðar verndun og nýtingu þessarar auðlindar.

Efnisumgjörð frumvarpsins er jafnvel til umfjöllunar í hópi hagfræðinga sem hafa það hlutverk að meta almenn og sértæk áhrif þess á greinina sem slíka og einstakar byggðir og þjóðarhag. Gert er ráð fyrir að hópurinn skili athugunum sínum í fyrri hluta júnímánaðar. Lögð er þung áhersla á að með svo víðtækri kerfisbreytingu sem hér er lögð til fylgi jafnframt ítarleg athugun líkt og þar er verið að vinna.

Frumvarpið tekur einnig við af skýrslu starfshóps um endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða frá 2010, eins áður er getið, sér í lagi þeim hluta skýrslunnar sem fjallar um svokallaða samningaleið. Eftirfarandi er stuttlega hluti af meginniðurstöðum starfshópsins með beinni tilvitnun, frú forseti:

„Meiri hluti starfshópsins telur að með tilliti til settra markmiða og kröfu um jafnræði og meðalhóf sé rétt að endurskoða fiskveiðistjórnarkerfið með sjálfstæðri löggjöf sem taki hliðsjón af auðlindastefnu almennt er byggist á hugmyndum um samningaleið. Meiri hluti starfshópsins telur rétt að gerðir verði samningar um nýtingu aflaheimilda og þannig gengið formlega frá því að auðlindinni sé ráðstafað af ríkinu gegn gjaldi og að eignarréttur ríkisins sé skýr. Samningarnir skulu m.a. fela í sér ákvæði um réttindi og skyldur samningsaðila, kröfur til þeirra sem fá slíka samninga, tímalengd og framlengingu samninga, gjaldtöku, aðilaskipti, ráðstöfun aflahlutdeilda sem ekki eru nýttar, meðferð sjávarafla o.fl. Mismunandi skoðanir voru innan hópsins um útfærslu á einstökum atriðum slíkra samninga. Meiri hluti starfshópsins er sammála um að mæla með að aflaheimildum verði skipt í „potta“ þar sem annars vegar eru aflahlutdeildir og hins vegar bætur og ívilnanir, s.s. byggðakvóti, strandveiðar og aðrar sérstakar ráðstafanir.“

Þetta var tilvitnun í meginniðurstöðu þess starfshóps sem ég gat um áðan. Í september 2010 og í framhaldi af umræðu af starfi starfshópsins tók samstarfshópur stjórnarflokkanna við á haustmánuðum þar sem sex þingmenn komu að mótun tillagna að frumvarpi þar sem farið var yfir tillögur endurskoðunarhópsins. Í þeim hópi voru hv. þm. Atli Gíslason, Björn Valur Gíslason, Lilja Rafney Magnúsdóttir af hálfu þingflokks Vinstri grænna, en úr Samfylkingu komu hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir, Róbert Marshall og Helgi Hjörvar. Þann 21. mars sl. hætti Atli Gíslason í þingflokki Vinstri grænna og þar með í þessum samráðshópi þingmannanna. Þingmennirnir sem þá voru í hópnum skiluðu ýmsum minnisblöðum um málið og eftir það var endanleg frumvarpsgerð í hendi þess sem hér talar. Að þeirri vinnu komu einnig hæstv. ráðherrar ríkisstjórnarinnar, Jóhanna Sigurðardóttir, Steingrímur J. Sigfússon og Guðbjartur Hannesson. Frumvarpið er síðan lagt fram sem frumvarp ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og var samþykkt í ríkisstjórn. Þaðan fór það svo til þingflokka stjórnarflokkanna og var afgreitt af þeim til framlagningar á hinu hv. Alþingi.

Meginatriði lagafrumvarpsins eru eftirfarandi: Að áfram verði lögfest að nytjastofnar á Íslandsmiðum verði þjóðareign eftir því sem nánar er ákveðið í lögum og að óheimilt verði að selja auðlindina eða láta hana varanlega af hendi. Með sérstökum samningi má veita einstaklingum tímabundinn rétt til afnota eða hagnýtingar á auðlindinni gegn gjaldi. Hér er áréttað að með gerð tímabundinna nýtingarsamninga sé rofið hið meinta eignarréttarlega samband fiskveiðiheimilda og það er í reynd mikilvægasta atriðið sem frumvarpið felur í sér. Úthlutun veiðiheimilda og gerð samninga um nýtingarleyfi á aflaheimildum mun ekki mynda eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.

Samningar um nýtingarleyfi á aflaheimildum verði í upphafi að jafnaði til 15 ára og nýtingarleyfishafi á rétt á viðræðum um endurskoðun og hugsanlega framlengingu samnings sem getur orðið átta ár. Árétta skal að ekki er um skýlausan rétt til framlengingar samnings að ræða. Rétturinn einskorðast við að aðilar sem staðið hafa við allar samningsskuldbindingar á samningstímanum geti óskað eftir viðræðum um framlengingu.

Tvenns konar skilyrði eru gerð fyrir framlengingu: Gerður er fyrirvari um heimild Alþingis til frekari breytinga á fiskveiðistjórnarkerfinu og aðrar forsendur mega ekki hafa breyst frá upphaflegri samningsgerð.

Ógerningur er að tilgreina fyrir fram í löggjöf eða hvaða breyttu forsendur geti valdið því að samningar verði ekki framlengdir en litið verður til meginreglna samningalaga um brostnar forsendur í þessu sambandi.

Jafnframt er vakin sérstök athygli á að í bráðabirgðaákvæði í frumvarpinu er tiltekið afar skýrt að lögin skuli endurskoðast á sjöunda ári. Gildistími frumvarpsins er því settur 23 ár, þ.e. upphafssamningur auk einnar átta ára framlengingar.

Lagt er til að útgerðir sem úthlutað hefur verið aflahlutdeild og eða krókaaflamarkshlutdeild á fiskveiðiárinu 2010/2011 og uppfylla tiltekin skilyrði eigi rétt á samningum eins og hér eru lagðir til. Ekki þykir rétt að gera kröfu um ákveðið félagaform en heimilt verði að taka tillit til fjárhagsstöðu útgerðar við samningsgerð, að hlutaðeigandi sé í skilum með greiðslu skatta og opinberra gjalda og hafi gilda kjarasamninga við áhafnir. Hafi samningsaðili staðið við allar samningsskuldbindingar sínar skal hann eiga rétt á viðræðum um endurskoðun á framlengingu samnings sem hefjast skal sex árum fyrir lok gildistíma samnings en ljúki eigi síðar en fimm árum fyrir lok gildistíma samnings.

Í frumvarpinu er eins og áður segir lagt til í bráðabirgðaákvæði að lög um stjórn fiskveiða verði endurskoðuð á sjöunda ári frá gildistöku nýrra laga. Þá hafa þær kerfisbreytingar sem hér eru lagðar til fest sig í sessi og hægt að taka mið af reynslunni við endurskoðunina. Tímabundinn nýtingarréttur eins og lagt er til er grundvöllur þeirrar umgjörðar sem þá er nauðsynleg.

Varanlegt framsal veiðiheimilda er óheimilt. Sé útgerð hætt falla heimildir til ríkisins. Þó er lagt til í bráðabirgðaákvæði að varanlegt framsal sé heimilt fyrstu 15 árin eftir gildistöku laganna með þeim takmörkunum að ráðherra eigi fyrir hönd ríkissjóðs sem og sveitarfélög skýran forleigurétt. Framsal innan sömu útgerðar verði þó heimilt án þess að forleiguréttur ríkisins eða sveitarfélaga eigi við. Við ákvörðun um hvort forleiguréttur sé nýttur skal gæta að jafnræði, byggðasjónarmiðum og hagkvæmri nýtingu auðlindarinnar.

Árétta skal að þrátt fyrir bráðabirgðaákvæði í frumvarpinu um flutning aflaheimilda geta handhafar aflaheimilda alls ekki gengið út frá því á grundvelli nýtingarsamninga að aflaheimildir hafi verðmæti eftir að fyrsti nýtingarsamningur rennur út. Með lagasetningu þessari verður ekki heft framtíðarsvigrúm löggjafans til breytinga eða almennra ráðstafana sem leitt geta til þess að heimild til varanlegs framsals aflaheimilda verði afnumin. Lagt er til bann við veðsetningu á aflahlutdeild og réttindum á grundvelli nýtingarsamninga um aflahlutdeild. Slík réttindi verða ekki aðfararhæf og falla því niður við gjaldþrot. Gera þarf breytingar á ýmsum lögum til að tryggja það en unnið er að gerð slíks frumvarps í ráðuneytinu og er þeirri vinnu að mestu lokið miðað við það sem lagt er til hér.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að hluti aflaheimilda færist í svokallað hlutfall sem er strandveiðihluti, byggðahluti, leiguhluti, ívilnunarhluti og bótahluti.

Um langt skeið hefur verið tíðkað að nýta hluta aflaheimilda til ýmissa jöfnunaraðgerða, ívilnana og uppbóta. Það á rætur sínar að rekja til lagasetningar sem allir þeir þingflokkar sem setið hafa á Alþingi síðustu ár hafa komið að með einhverjum hætti. Fram til þessa hefur sá háttur verið hafður á að aðeins hefur verið tekið af aflamarki fjögurra tegunda, þ.e. þorsks, ýsu, ufsa og steinbíts. Lagt er til að við tilfærsluna leggi allir aflamarkshafar til jafnan hlut og er þá miðað við heildarútreikning þorskígildistonna. Í magni munar um að aflamarkshafar í uppsjávartegundum leggja til tilfærslnanna eins og aðrir. Frá því að hinir mismunandi „pottar“ hafa verið innleiddir hafa þessir aðilar að vísu þurft að leggja til hinna samfélagslegu aðgerða sem ég rakti áðan. Hér er því augljóslega um jafnræðismál að ræða og er rétt að geta þess að fyrr á þessu þingi fluttu þrír þingmenn frá Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki tillögu um sambærilega breytingu á þessum jöfnunaraðgerðum.

Í frumvarpinu er kveðið á um að á 15 árum flytjist allt að 15% allra aflaheimilda úr öðrum tegundum en þorski, ýsu, ufsa og steinbít í leiguhluta. Á fyrsta ári verða flutt 4% en síðan jafnt á ári þar til 15% markinu verður náð á 15. ári. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að aflaheimildir þessar verði boðnar upp þannig að heimild verði í reglugerð til að ákveða hámarksmagn sem hver og einn getur boðið í ásamt fleiri þáttum, samanber 3. gr þessa frumvarps. Þessar heimildir verði leigðar út á kvótaþingi en gert er ráð fyrir að sett verði fram sérstakt lagafrumvarp um kvótaþing og er slíkt frumvarp í smíðum í ráðuneytinu.

Varðandi þorsk, ufsa, ýsu og steinbít er miðað við að aflamark núverandi hlutdeildarhafa verði ekki skert frá úthlutuðu aflamarki fiskveiðiársins 2010–2011 nema úthlutað heildarmagn verði lægra en sem því nemur á grundvelli ráðgjafar Hafrannsóknastofnunar. Komi hins vegar til aukningar umfram framangreint verði 55% aukningarinnar úthlutað til hlutdeildarhafa en 45% renni til þeirra hluta sem að ofan greinir, fyrst til byggða- og strandveiðihluta og síðan til leiguhluta. Þegar heildarafli þessara tegunda fer yfir meðalafla fiskveiðiáranna 1991 til 2010–2011 skal 50% aukningarinnar umfram það magn renna til flokks 1 og 50% til flokks 2, eins og ég greindi frá áðan. Gert er ráð fyrir því að strandveiðihluti aukist um 2.400 tonn af þorski og 600 tonn af ufsa á fyrsta fiskveiðiári eftir gildistöku þessara laga, verði nægar heimildir fyrir hendi. Eins er gert ráð fyrir að byggðahluti aukist um 8 þúsund lestir, þar af 6 þúsund lestir af þorski, 1.200 lestir af ýsu og 800 lestir af ufsa, strax á fyrsta fiskveiðiári eftir gildistöku þessara laga, verði nægar heimildir fyrir hendi. Eftir að framangreindu aflamarki er náð til þýðingarmikilla verkefna í strandveiðihluta og byggðahluta fer allur hluti aukningar ríkisins í leiguhluta. Heimilt verður að færa aflamark úr leiguhluta í nýja nýtingarsamninga.

Línuívilnunarhluti og kvótahluti verða að óbreyttu með þeirri undantekningu að gert er ráð fyrir að skel- og rækjubætur flytjist í byggðahluta alfarið fimm fiskveiðiárum eftir gildistöku laganna.

Til þess að skýra með dæmi hvað þær breytingar hefðu í för með sér má bregða upp eftirfarandi mynd: Ef við gefum okkur að 10 árum eftir gildistöku laganna hafi orðið 60 þúsund tonna aukning heildaraflamarks í þorski á grundvelli ráðgjafar Hafrannsóknastofnunar en staðan sé óbreytt í öðrum tegundum, fara tæplega 15% af heildaraflamarki til hlutakerfisins en um 85% í hið samningsbundna krókaaflamarks- og aflahlutdeildarkerfi. Í dag fara tæplega 5% til þessa hluta- og bótakerfis. Við þessa breytingu verður skerðing samningshafa í heildargerðinni um 3.000 þorskígildi, úr 423 þúsund tonnum í 420 þúsund tonn. Fari svo að engin aukning verði á þessu 10 ára tímabili minnkar hlutur samningsaðila um 20 þúsund þorskígildistonn en í hlutakerfi hefur það lækkað sem því nemur á grundvelli 15% reglu sem nær, eins og fyrr segir, til annarra tegunda en þorsks, steinbíts, ufsa og ýsu.

Vissulega er um mikla breytingu að ræða og báðir stjórnarflokkarnir hafa einmitt lagt áherslu á að gerðar verði breytingar á fiskveiðistjórninni. Það fer ekki hjá því að minnstu breytingar í stjórn fiskveiða hafa víðtæk áhrif og því er mikilvægt að gætt sé meðalhófs. En það er eðlilegt að um einstök hlutföll séu skiptar skoðanir og því mikilvægt að við þróum þá umræðu með þeim hætti að hún skili okkur fram á við í átt til þeirra markmiða sem við ætlum að ná.

Mikil umræða hefur verið um gjald af sjávarauðlindinni og í frumvarpinu eru stigin skref í þá átt að skapa sátt og sanngirni um þau mál. Lagt er til að veiðigjald verði tvöfaldað frá því sem nú er. Jafnframt er gert ráð fyrir að heimilt verði að taka tillit til mismunandi framlegðarútgerðarflokka, en eins og þekkt er getur framlegð þeirrar verið afar mismunandi. Framlegð í uppsjávarveiðum og þorskveiðum hefur undanfarið verið ágæt en ekki verður annað sagt en að framlag t.d. til rækjuveiða hafi verið afleitt um tíma. Það er þó síbreytilegt eftir aðstæðum hverju sinni og er gert ráð fyrir að heimilt verði að taka tillit til þess.

Varðandi tekjur af veiðigjaldi er gert ráð fyrir að 50% þeirra renni í ríkissjóð, 30% fari til sjávarbyggða samkvæmt sérstakri reiknireglu sem þarf að útfæra og 20% til að efla nýsköpun, rannsóknir, þróun og sameiginleg markaðsmál íslensks sjávarútvegs. Hjá þeim þjóðum sem við berum okkur helst saman við er það talið vera eðlilegt hlutverk ríkisvaldsins að sporna gegn fólksflutningum frá stöðum sem standa höllum fæti. Það er mikið vafamál að það hafi verið gert hér á landi en með því að beina veiðigjaldi að hluta til og beint til sjávarbyggða á landsbyggðinni er að mínu mati stigið mjög mikilvægt skref í þeirri stefnumörkun sem ég nefndi.

Við skulum hafa það hugfast að við síðustu fjárlagagerð fannst mörgum freklega gengið að landsbyggðinni. Talnalegar úttektir um þessi mál benda til þess að íbúar landsbyggðarinnar fái aðeins um 50% af þeim sköttum sem þeir greiða til samfélagsins til byggða sinna samkvæmt þeim skýrslum sem okkur hafa verið kynntar. Á meðan fá íbúar af helstu vaxtarsvæðum landsins mun meira til byggðarlags síns. Það hefur verið mikið til umræðu á þessu ári. Ríkisstjórnin hefur átt fundi m.a. á Ísafirði og Suðurnesjum þar sem þessi mál hafa mikið verið rædd. Hér helst munurinn í hundruðum þúsunda á hvert mannsbarn og má því reikna með því að fyrir hvern íbúa á landsbyggðinni skipti þetta gríðarlega miklu máli. Ég tel mjög mikilvægt að við ræðum það þegar við horfum til hinnar stærstu auðlindar sem sjávarbyggðirnar vítt og breitt um landið byggja stöðu sína og afkomu á.

Sú velmegun sem við sem þjóð höfum búið við undanfarna mannsaldra á sér því fjölmargar og margsnúnar rætur í útlendu athafnalífi, atorku og sögu 20. aldarinnar, en að öllu ólöstuðu er hlutur hinna íslensku sjávarbyggða stærri en nokkurra annarra í þessum efnum, eljan, framþróunin og samtakamátturinn en ekki síður fórnirnar sem þessir staðir færðu íslenskri þjóð og skiluðu sér smám saman í þeirri velmegun og velferðarríki sem við þekkjum í dag. Það varð ekki síst með nýtingu sjávarauðlindanna.

Ég ætla ekki að öðru leyti að fara inn á þann þátt, en af því að hér hefur verið minnst á kostnaðarmat fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins bendi ég á að fjárlaganefnd samþykkti á sl hausti að láta Byggðastofnun gera sérstaka athugun og úttekt á byggðaáhrifum fjárlagafrumvarpsins og fjárlaganna. Ég held að það eigi að vera ein meginskylda okkar í þessum efnum þegar við afgreiðum lög eða fjárhagslegar skuldbindingar af hálfu Alþingis að gera jafnframt mjög nákvæma úttekt á því hvaða áhrif það hefur, ekki síst í þessum efnum. (Gripið fram í.)

Þá er sú nýlunda lögð til í frumvarpinu að sveitarfélögunum verði gefinn sá kostur, velji þau svo, að úthluta sjálf veiðiheimildum sem þeim falla í hlut í gegnum byggðaúthlutanir, einnig ef sveitarfélögin nýta sér þann forleigurétt á aflahlutdeildina sem ég nefndi áðan. Hægt væri að hugsa sér þá útfærslu að byggðarlaginu yrði gefið sérstakt númer í kerfi Fiskistofu sem aflaheimildum byggðarlags væri úthlutað til og síðan gæti sveitarstjórn úthlutað aflaheimildum til fiskiskipa í byggðarlaginu. Þau skilyrði eru þó sett að þau eigi heimahöfn á viðkomandi stað, að útgerðin eigi þar heimilisfesti og að aflanum sé landað þar til vinnslu. Það fyrirkomulag gæti gefið sveitarstjórnum ákveðið svigrúm til að stuðla t.d. að nýliðun í greininni og stuðningi við kvótalitlar útgerðir eða ákveðna veiðiaðferða- og útgerðarflokka. Menn hafa nefnt þar t.d. línu- og handfæraveiðar frá ákveðnum byggðarlögum. Þá gæfist einnig sá möguleiki að sveitarstjórnir veittu aflaheimildum til úrlausna ákveðinna verkefna sem gætu falist í meðafla eða við ákveðnar veiðar eins og fram kom á einstaka stöðum á sl. vori með grásleppuveiðum þar sem skyndilega komu aðrar tegundir inn eins og þorskur sem viðkomandi átti ekki heimildir fyrir.

Lagt er til að framsal á aflamarki verði takmarkað innan fiskveiðiársins við 25% og réttindi til framsals verði áunnin með veiðum. Þeirri þrengingu framsalsréttar frá núgildandi lögum er ætlað að stuðla að því að skip veiði úthlutaðar aflaheimildir sínar. Á hinn bóginn er mikilvægt að viðhaldið sé svigrúmi til hagræðingar og að útgerðir geti brugðist við breyttum aðstæðum og því er takmarkað framsal innan ársins heimilt. Einnig þarf að hafa í huga að nokkuð er um að minni útgerðir án aflaheimilda treysti á að leigja til sín heimildir og með þessu ákvæði má ætla að nokkuð sé komið til móts við þær.

Lögð er til sú breyting að óheimilt verði að flytja aflamark á milli krókaaflamarkskerfis og aflamarkskerfis. Jafnframt er lagt til að hlutdeild verði ekki færð á milli krókaaflamarks- og aflamarkskerfis. Í frumvarpinu eru settar frekari skorður við skiptum útgerða á aflaheimildum milli fisktegunda, svo sem tegundatilfærslna, en þar er kveðið á um að tegundatilfærslan megi ekki vera meiri en sem nemur 30% af aflamarki viðkomandi skips.

Í frumvarpinu er einnig sú nýlunda að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er heimilt að taka mið af stærð eða gerð skips, veiðiaðferð, búnaði, veiðisvæðum, heimahöfn og útbreiðslu stofna þegar aflahlutdeild vegna nýrra stofna er úthlutað. Það gefur möguleika á að taka sérstaklega tillit til aukinna krafna í umhverfismálum og siðrænnar umgengni við auðlindina. Áður var í reynd eingöngu unnt að horfa til veiðireynslu.

Við úthlutun aflahlutdeildar skal síðan ætíð vera fyrir hendi nýtingarsamningur við stjórnvöld og þá er gert ráð fyrir því að heimild sé með reglugerð að beita tímabundið öðrum aðferðum fiskveiðistjórnar á tegundum sem greinin fjallar um svo sem með úthlutun á veiðidögum. Mikilvægt er að stuðla að sem mestri fullvinnslu sjávarafla hér á landi og í því skyni er lagt til með bráðabirgðaákvæði að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipi nefnd er hafi það verkefni að leggja til aðgerðir sem geti stuðlað að auknum og hraðari árangri á þessu sviði.

Í frumvarpinu er einnig að finna bráðabirgðaákvæði sem tiltekur að stofna skuli nefnd þriggja ráðuneyta til að fara yfir skattlagningu sjávarútvegsins frá ýmsum hliðum. Nefnd þessi skal hafa lokið störfum fyrir næsta haust.

Þá má einnig nefna að í frumvarpi þessu er ákvæði um að framlengja bráðabirgðaákvæði nr. 9 í núgildandi lögum um stjórn fiskveiða. Það ákvæði segir að á tveimur fiskveiðiárum skuli leyfa frístundaveiðar eins og lögin kveða á um.

Frú forseti. Ég sé að tími minn er búinn en grundvallarbreytingin er sú að hér er með óyggjandi hætti kveðið á um í lögum að meint eignarhald á fiskveiðiauðlindinni verði með afdráttarlausum hætti flutt í hendur þjóðarinnar og ráðstöfun er af hálfu ríkisins. Önnur (Forseti hringir.) framkvæmdaratriði sem frumvarpið kveður á um eru til að sýna hvernig kerfið getur verið sett fram í heild. Hér er sett fram heildstætt frumvarp á grundvelli þeirra markmiða sem ég hef nú lýst.