139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[11:05]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt að erfitt hefur reynst að skapa sátt um stefnu okkar í fiskveiðistjórn, það er alveg hárrétt. En það þýðir ekki að það sé hægt að bjóða upp á hvað sem er vegna þess. Hæstv. ráðherra talar fyrir breytingum sem eru allar í átt til félagslegs kerfis.

Síðast þegar við settum heildarlög á Alþingi um stjórn fiskveiða var megináherslan hagkvæmni veiðanna. Þá sátu núverandi hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra í ríkisstjórn sem lagði til frjálst framsal aflaheimilda. Forustumenn ríkisstjórnarinnar sátu í þeirri ríkisstjórn og bera ábyrgð á því. Hæstv. sjávarútvegsráðherra segir að þetta hafi skapað mikla óánægju og ólgu í tengslum við kerfið. Er hann með því að segja að það hafi verið mistök hjá Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrími J. Sigfússyni að styðja mál um frjálst framsal aflaheimilda árið 1990? Er hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að segja að það hafi verið mistök og við eigum að hverfa frá því? Vill ráðherrann félagslegt kerfi (Forseti hringir.) eða kerfi sem byggir á því að ná hámarksafrakstri í greininni?