139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[11:28]
Horfa

Þór Saari (Hr) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég verð að koma hér upp og kveðja mér hljóðs um þetta mál, fundarstjórn forseta. Hér er um að ræða gríðarlega mikið hagsmunamál fyrir hóp manna í samfélaginu, útgerðarmenn, og mér finnst óviðeigandi undir þessum umræðum að hv. þm. Ásbjörn Óttarsson taki þátt í umræðunni með þessum hætti. Hann er algjörlega ótrúverðugur í þessari umræðu þar sem hann er útgerðarmaður, á kvóta sjálfur og hefur beina fjárhagslega hagsmuni af því að koma í veg fyrir að þetta frumvarp og þessi frumvörp fari í gegn.

Ég hef lengi gert athugasemdir við það að Sjálfstæðisflokkurinn væri pólitískur armur útgerðarinnar á Íslandi. Það birtist hvergi betur en akkúrat í þessari umræðu og að hann skuli vera næstur á dagskrá á eftir sjávarútvegsráðherra finnst mér algerlega óviðeigandi. Ég hvet hv. þingmann til að fá inn varamann meðan þessi umræða á sér stað.