139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[11:31]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég mótmæli harðlega málflutningi hv. þm. Þórs Saaris þar sem hann ýjar að því að hv. þm. Ásbjörn Óttarsson sé vanhæfur á einhvern hátt til að taka þátt í þessari umræðu.

Ég ætla að segja að hv. þm. Ásbjörn Óttarsson er afar vel hæfur vegna þekkingar sinnar einmitt á sjávarútvegi til að taka þátt í umræðunni en það á hins vegar ekki við um hv. þm. Þór Saari. Ég tel að það sé styrkur fyrir umræðuna að í henni taki þátt menn sem eru sprottnir upp úr sjávarútveginum, hafa haslað sér þar völl að eigin frumkvæði og með sinni atorku. Ég held að það sé gríðarlegur styrkur fyrir okkur að hafa einmitt slíka menn til að takast á við umræðu af þessu tagi. Vegna þess að ekki veitir af að flytja þá þekkingu hingað inn í sali þingsins, eins og sú umræða hefur stundum farið fram um sjávarútvegsmál, sem hefur byggst á klisjum og upphrópunum og á ekkert skylt við þann reynsluheim sem þeir þekkja sem hafa starfað í sjávarútveginum.

Anginn af þessari umræðu er að það eigi að vera þannig að menn eigi alls ekki að hafa komið að atvinnulífinu, menn eigi ekki að hafa nokkra þekkingu á atvinnulífinu sem eru í þingsölum því að þá eru þeir vanhæfir í öllum sköpuðum hlutum. Þvert á móti er það svo að í gegnum áratugina hefur það einmitt verið styrkur þingsins, t.d. í sjávarútvegsmálum, (Forseti hringir.) að hér hafa verið menn sem hafa þekkt þar vel til, m.a. vegna starfa sinna innan greinarinnar.