139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[11:32]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (um fundarstjórn):

Forseti. Það er með ólíkindum að heyra þá umræðu sem hér á sér stað undir liðnum um fundarstjórn forseta að hv. þm. Þór Saari dirfist að taka sér það vald að úrskurða um hæfi einstakra þingmanna til að ræða tiltekin mál. Alþingi er þverskurður þjóðfélagsins, sem betur fer. Ef hv. þingmaður legði hér fram einhverja allsherjarreglu um hverjir mættu taka til mál á hinu háa Alþingi stæði hann sennilega einn eftir.

Þetta er ekki framkoma sem er líðandi eða með nokkrum hætti afsakanleg og ofbýður öllu skynsamlegu fólki. Það fer betur á því að því fleiri sjónarmið úr sem breiðustum grunni komi hér inn. Og ég mótmæli því að þetta frumvarp sé bundið tilteknum einum stjórnmálaflokki. Það er rangt að gefa það til kynna og það er ómaklegt að bera slíkt fram, hv. þm. Þór Saari.