139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[11:43]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ekki var sú umræða sem átti sér stað hér á undan mjög uppbyggileg. En ég ætla ekki að staldra við það.

Ég vil byrja á að tala um þá umræðu sem staðið hefur um sjávarútveginn og þá sem starfa í honum. Hún endurspeglast kannski aðeins í þeim umræðum sem hér hafa orðið um fundarstjórn forseta. Ég vil sérstaklega gera það að umtalsefni að hæstv. forsætisráðherra hefur verið í forsvari fyrir slagorða- og ófrægingarherferð gagnvart fólki sem starfar í þessari grein, það er hvorki henni né embætti hennar sæmandi. Það er með ólíkindum að hæstv. forsætisráðherra skuli hafa gengið fram með þeim hætti sem hún hefur gert, það er óþolandi og ólíðandi og er henni til ævarandi skammar.

Sjávarútvegurinn er undirstöðuatvinnuvegur þjóðarinnar. Og hvað þýðir það? Það þýðir að eftir því sem honum gengur betur þeim mun meiri verður hagsæld og velferð í landinu. Flóknara er það ekki. Ef undirstöðuatvinnuvegurinn gengur vel getum við miðlað til þeirra sem þurfa á því að halda, ég nefni til að mynda aldraða, öryrkja og allt það sem snýr að velferðarkerfinu í heild sinni. Þannig er það og framkoma hæstv. forsætisráðherra er því algjörlega óþolandi og tilgangurinn er einungis pólitískur.

Við skulum rifja það upp við hvaða aðstæður íslenskur sjávarútvegur starfar. Hann keppir við ríkisstyrktan sjávarútveg á mörkuðum um allan heim og þarf að standa þar á eigin fótum. Eftir því sem okkur gengur betur og eftir því sem við sköpum meiri verðmæti þeim mun meiri hagsæld verður það fyrir þjóðina. Það er ekki flóknara. Alla tíð hefur verið mikil óvissa, og sérstaklega pólitísk óvissa, í kringum sjávarútveginn en hún hefur verið með alversta móti síðustu tvö árin. Við höfum séð beinar afleiðingar þess, þær blasa við. Margir aðilar sem þjónusta sjávarútveginn og starfa í kringum greinina hafa fært fyrir því rök og bent okkur á hversu óæskilegt þetta er.

Það sem er þó verst við það er að þetta skaðar okkur til lengri tíma litið. Eins og ástandið er í dag sinnir sjávarútvegurinn ekki af nægjanlegu miklu afli markaðsstarfi og gæðamálum til að auka aflaverðmætið og um leið tekjur þjóðarbúsins. Hann sinnir því ekki nógu vel vegna þess að hann er hálflamaður. Á sama tíma hafa Norðmenn — sem hafa alla tíð verið að keppa við okkur á sömu mörkuðunum en alltaf verið í lægri standard en við, alltaf fengið lægra verð fyrir afurðir sínar, sérstaklega í þorskinum — farið í gríðarlega mikið markaðsstarf úti í heimi, gríðarlega mikið markaðsátak, eytt í það stórum fjárhæðum, á meðan við sitjum heima og gerum ekki neitt eða allt of lítið.

Þetta kom mjög vel í ljós þegar ég heimsótti 3xStál á Ísafirði en þar sögðu menn okkur hvað er að gerast. Útlendingarnir sem keppa við okkur eru hugsanlega að komast fram úr okkur í þeirri framþróun sem fylgir því að bæta meðferð afla, auka nýtingu og aflaverðmæti, vegna þess að við fjárfestum ekki nóg í þeirri grein. Það er mjög áberandi að íslenskur sjávarútvegur er ekki að fjárfesta nægilega mikið, það er frost.

Mig langar aðeins að rifja upp hvernig þetta blessaða kvótakerfi byrjaði allt saman, sem að sjálfsögðu hefur aldrei verið og verður aldrei óumdeilt og er ekki gallalaust. Árið 1983 kom út hin svokallaða Svarta skýrsla frá Hafró. Í skýrslunni var þess getið að ef ekki yrði dregið úr veiðunum með mjög afgerandi hætti mundi þorskstofninn hrynja, nánast endanlega. Hvað var gert? Þá fóru menn í að reyna að stýra veiðunum, menn byrjuðu reyndar bæði með sóknarmark og aflamark til að draga úr veiðunum. Það var dregið 40% úr veiðunum. Voru sjómenn að biðja um það? Voru útgerðarmenn að biðja um það? Nei, þeir voru ekki að biðja um það, alls ekki því að tekjur þeirra og atvinnumöguleikar voru skertir um 40%. Svo er talað um það í dag að þessir aðilar hafi verið að biðja sérstaklega um þetta. Það var ekki þannig.

Mig langar líka að rifja upp hvað hefur gerst og ég var háseti til sjós þegar þetta gerðist. Hvað gerðist til að mynda í meðferð afla? Það hefur orðið alger bylting því að þegar þetta var þá var öll útgerðin á hausnum. Og hvað var þá gert? Þá var gengið fellt til að rétta sjávarútveginn af. Hverjir borguðu það? Jú, það voru nefnilega launþegar og íbúar landsins sem borguðu hallareksturinn af sjávarútveginum, þannig var það þá.

Eitt skal ég segja ykkur, bara til að draga það fram, sem veitir ekki af oft og tíðum: Þegar ég var til sjós, og áður en kvótakerfið kom til, hefði sá skipstjóri verið rekinn sem hefði látið sér detta í hug að draga upp netatrossurnar þó að spáð væri brjáluðu veðri og fiskurinn yrði tveggja nátta næst þegar dregið yrði. Það datt þetta ekki nokkrum manni í hug. En ef skipstjóri dregur ekki upp netin þegar spáir svona þá yrði hann rekinn, það eru staðreyndir málsins í dag, og þetta skilar okkur að sjálfsögðu miklu meiri heildarverðmætum fyrir þjóðarbúið. Þetta eru staðreyndir.

Ég sagði líka áðan: Kvótakerfið er ekki gallalaust og verður eflaust aldrei gallalaust. En ég minni á eitt. Frá því að það var sett á hafa stjórnvöld á hverjum tíma fært 40% af aflaheimildum á milli útgerða með handafli eða pólitískum ákvörðunum. Ef einhver hefur fengið 100 tonnum úthlutað þá er búið að færa af honum 40 tonn, eða 40%, með pólitískum ákvörðunum til að bregðast við ákveðnum göllum, færa til og búa til potta fyrir smábáta og strandveiðibáta, fyrir krókaaflamarksbáta, byggðakvóta og þetta allt saman með handvirkum hætti. Það voru pólitískar ákvarðanir, 40% af veiðiheimildum færð til. Það segir kannski allt um þetta. Svo koma menn upp og segja, eins og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sagði áðan, að markmiðið núna sé að þetta verði í þjóðareign. Það eru engar deilur um það. Hættum að tala á þessum nótum. Það deilir enginn um það að þetta sé þjóðareign. Hættum þessari vitleysu. Þetta er algerlega óþolandi málflutningur. Það eru engar deilur um það á milli stjórnmálaflokka að þetta sé eign þjóðarinnar og þjóðin eigi að njóta arðsins af auðlindunum.

Mig langar aðeins að ræða ráðherraræðið í frumvarpinu. Það hlýtur að vera umhugsunarefni fyrir hv. þingmenn hvernig því er háttað. Í einni greininni er, held ég, 19 sinnum talað um að „ráðherra skuli“ og „ráðherra geri“ og „ráðherra sé heimilt“. Það er umhugsunarefni fyrir okkur í þinginu í ljósi þeirrar misskiptingar sem klárlega á sér stað í strandveiðunum, eins og ég benti á. Það er ekki hægt að deila um það, hún liggur alveg skýrt á borðinu. Vestfirðingar fá til að mynda ekki sömu réttindi og menn á Norðurlandi. Það eru bara tölulegar staðreyndir. Vestfirðingarnir fengu að róa í fimm daga meðan Norðlendingar áttu eftir 30% af kvótanum sínum einum degi eftir að tímabilinu lauk. Þetta kalla ég ekki jafnrétti, alls ekki. Ég ítreka að hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir tók undir þessa gagnrýni í fyrra og að hluta til í hittiðfyrra og hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir tók líka undir þessa gagnrýni í fyrri umræðu um þau mál sem við ræðum nú. En samt sem áður hefur ekkert gerst af því að ráðherrann hefur einn valdið. Þessu þarf að breyta. Ég fagna því sérstaklega að það verði þá tekið til meðferðar í hv. sjávarútvegsnefnd þegar þetta verður skoðað þannig að dregið verið úr ráðherraræðinu og þingmenn hafi beinni aðkomu að því sem verið er að gera.

Mig langar aðeins að tala um það sem allir eru sammála um, held ég, og ekki eru miklar deilur um, en það er sá ljóður sem er á því að menn selji sig út úr greininni. En hvernig hefur þetta verið að gerast? Förum yfir staðreyndirnar. Hvað gerðist til að mynda árið 2007 þegar miklar skerðingar urðu? Þá höfðu menn val. Menn gátu minnkað við sig, hætt eða bætt við sig. Það voru mjög margir sem gerðu það því að veiðigetan er langt umfram það sem við megum veiða. Hvað gerðist þá? Hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson, sem situr í salnum, sagði í ræðu sinni að þeir sem hefðu sýnt byggðalega festu ættu að fá að njóta. Já, fínt, en hvað gerðist? Hvað gerðist í lok ársins 2008? Þá gerðist að minnsta kosti tvennt sem ég ætla að rifja upp fyrir utan allt annað. Skuldir þeirra sem höfðu keypt veiðiheimildirnar af þeim sem hættu, til að halda vinnunni í byggðarlögunum, nánast þrefölduðust út af gengishruninu. Þetta vita allir. En þeir sem seldu kvótann sinn og lögðu peningana í bankann fengu hann tryggðan og þeir héldu peningunum sínum. Hvað gerist svo? Síðan er farið í þessar strandveiðar og þá fengu sömu aðilar, margir hverjir, aftur aðgang þarna inn þó svo að þeir væru búnir að selja sig margsinnis út úr greininni. Þetta kalla ég ekki réttlæti, því miður.

Virðulegi forseti. Menn tala um að það sé svo mikilvægt að hafa nýliðun í greininni. Fínt, það getur vel verið að það sé gott. En hvað er nýliðun? Er maður sem er búinn að selja sig nokkrum sinnum út úr greininni og fer í strandveiðar nýliði? Ég spyr. Er það nýliðun í greininni þegar öflugt sjávarútvegsfyrirtæki ræður til sín hámenntaðan mann, sendir hann í markaðssetningu og aflar meiri tekna fyrir þjóðarbúið? Er það nýliðun þegar sprotafyrirtæki og nýsköpunarfyrirtæki, eins og 3xStál, ræður til sín mann til að hanna fiskvinnslutæki sem bætir nýtingu á afla og skapar þar af leiðandi meiri tekjur? Er það nýliðun? Ég held að við þurfum að ræða þetta aðeins því að þetta er orðið eitthvert slagyrði, að mér finnst.

Mesta ógnin við sjávarbyggðirnar í landinu hefur á undanförnum árum verið vitlaus aflaráðgjöf. Það er alveg skýrt í mínum huga. Svo tala menn, eins og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, um byggðirnar, og allt gott um það að segja. Við höfum væntanlega sama skilning á mikilvægi þeirra. En hvaða áhrif hafði það á sjávarbyggðirnar, og hvaða umræða varð um það á þinginu, þegar bolfiskheimildir voru skornar niður um 60 þús. tonn fyrir ári? Það var ekkert rætt. Halda menn að það hafi ekki áhrif á sjávarbyggðirnar þegar heimildir eru skornar niður um 60 þús. tonn? Hvers konar endemis vitleysa er þetta? En hvernig er sú ákvörðun tekin? Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fær tillögu frá Hafrannsóknastofnun. Hann tekur þær og leggur sitt til málanna, fer eftir þeim að sumu leyti og jafnvel öllu og stundum bætir hann einhverju við. Væri ekki eðlilegra, áður en við ræðum málið hér, að láta sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra mæla fyrir tillögum sínum, hver sem hann er á hverjum tíma. Hann gæti sagt hvað honum fyndist skynsamlegast að gera, og miðað þar við ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar, og borið það undir þingið. Þingið gæti tekið þátt í málefnalegri umræðu og haft skoðanir og kannski væri best að þeir sem hefðu vit á þessum málum tækju þátt í þeirri umræðu þó að það virðist trufla suma. Það væri hin eðlilega umræða um sjávarútveginn. Nei, hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd bíður skjálfandi og nötrandi hérna inni í færeyska herberginu og segir: Já, þetta ætlar ráðherrann að leggja til.

Þessum hlutum þurfum við að breyta. Við þurfum að taka miklu dýpri umræðu um sjávarútvegsmál. Hvernig nýtum við auðlindina? Við höfum mörg undanfarin ár verið að veiða allt of mikið æti frá fiskinum, það hefur engin umræða verið um það. En nú eru menn að vakna upp við vondan draum þegar þeir sjá sjófuglastofnana hrynja. Af hverju skyldi það vera? Getur það hugsanlega verið út af því að makríllinn er að koma og keppa um ætið? Það er væntanlega fyrirséð, hvort sem um er að ræða svartfugl, lunda eða kríu.

En hvað erum við að gera? Ég nefni til dæmis þessa veiði á gulldeplu. Þar er verið að veiða æti frá fiskinum. En við ræðum aldrei efnislega um sjávarútveginn og hverju það skiptir hvernig við nýtum auðlindina. Nei, við ræðum hann allt of oft í einhverjum slagorðafrösum (Gripið fram í.) — ég sagði við, hv. þingmaður, undanskil engan. En þó held ég að engar deilur séu um það að í því stendur Samfylkingin sig best og fer fremst í flokki.