139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[12:04]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna þar sem hann talar auðvitað af þeirri þekkingu sem hann hefur eftir að hafa verið í þessari atvinnugrein um langt árabil.

Kannski líka um langt árabil hefur verið ákveðið ósætti í samfélaginu sem stjórnmálaöfl hafa gert út á til að smala atkvæðum á fjögurra ára fresti. Atvinnugreinin hefur þar af leiðandi lifað við stöðuga ógn á fjögurra ára fresti. Hvaða þættir eru það sem hv. þingmaður telur að væri nauðsynlegast að breyta í núverandi kerfi til að reyna að ná sem víðtækastri sátt? Ég geri mér grein fyrir að það verður seint hægt að uppfylla óskir allra. Eru einhverjir sérstakir þættir sem þingmaðurinn er tilbúinn að breyta? Er það þá skoðun sjálfstæðismanna hverjir þeir væru?