139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[12:12]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er þó áfangi ef menn lýsa því yfir að þeir séu tilbúnir að skoða málið og þetta kerfi þurfi að vera í stanslausri endurskoðun. Það hefur nefnilega ekki verið tónninn í sjálfstæðismönnum fram að þessu. Tónninn í þeim hefur nákvæmlega verið sá (Gripið fram í: Öllum?) að hér ætti engu að breyta. (Gripið fram í: Öllum?)

Ef stjórnarskrárákvæði um eignarrétt er það eina sem menn telja samt ástæðu til að sameinast um, að hafa stjórnarskrárákvæði um eignarrétt þjóðarinnar í orði kveðnu en síðan eigi ekki að fylgja nein kerfisbreyting á eftir, finnst mér það fulllítið veganesti inn í þessa vinnu.

Hins vegar tek ég undir með þingmanninum um aflaráðgjöf Hafrannsóknastofnunar en þó á öðrum forsendum en hann. Ég held að það sé mjög óhollt fyrir öll vísindi þegar ein stofnun fær alræðisvald af því tagi sem Hafrannsóknastofnun hefur. Hún er ekki í samkeppni við nokkurn annan fræðilegan eða vísindalegan aðila um hafrannsóknir sínar og aflaráðgjöf. Það held ég að sé meinsemdin. Ég vil hins vegar ekki (Forseti hringir.) upplifa þann dag þegar ákvörðun um aflamagn á Íslandsmiðum verður pólitísk. Það rímar (Forseti hringir.) náttúrlega ekki við vísindin.