139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[12:14]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mikið hefur verið rætt um hagkvæmni greinarinnar og að með þessum grundvallarbreytingum sé vegið að hagkvæmni þess að gera út á Íslandsmiðum. Mig langar því að inna hv. þingmann eftir því hvort hann telji að smábátaútgerðin sé þjóðhagslega hagkvæm fyrir þjóðarbúið vegna þess að með því að skipta hinu nýja frumvarpi upp í tvo hluta hefur sú grein meiri möguleika á að byggja sig upp. Telur hv. þingmaður rétt að við gerum þjóðhagslega úttekt á samfélagslegum þáttum á hagkvæmni varðandi sjávarbyggðirnar og þær grunngerðir sem búið er að fjárfesta í ef það nýtist ekki vegna þess kerfis sem við búum við í dag? Hvernig telur hann það koma út fyrir þjóðarbúið út frá arðsemi ef þær stoðir og sú grunnbygging samfélagsins eru ekki nýttar sem skyldi?