139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

landsdómur.

[13:32]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Í eina málinu sem hefur verið ákært í á grundvelli laga um ráðherraábyrgð, málinu sem nú er fyrir landsdómi, hófst vegferðin á því að ákæra var gefin út án sakamálarannsóknar. Sakborningurinn fékk sér ekki skipaðan verjanda fyrr en seint og um síðir. Innanríkisráðherrann lagði síðan fram frumvarp um breytingar á málsmeðferðarreglunum eftir að ákæran hafði verið gefin út og nú síðast hefur saksóknari Alþingis ákveðið að opna vefsíðu til að halda saman sjónarmiðum sínum og málsskjölum í málinu.

Mig langar til að bera það undir hæstv. forsætisráðherra, sem er leiðtogi ríkisstjórnarinnar og stjórnarmeirihlutans í þinginu, hvort ekki sé orðið fullmikið af hinu góða í framkomu gagnvart sakborningi í málinu, hvort það sé í raun og veru nokkurt tilefni til að opna vefsíðu til að halda utan um málsskjölin þar sem það er svo augljóst að allir þeir sem vilja fylgjast með málinu geta gert það í þessu opinbera réttarhaldi og fengið send til sín skjöl ef eftir því er óskað.

Allt ber þetta vott um að það halli mjög á þann sem sótt er að. Ekki hefur hann tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum sérstaklega að á þessari vefsíðu sem haldið er úti á kostnað skattgreiðenda þessa lands og ekki þekkjast þess nokkur önnur dæmi í sakamálum að opnuð sé vefsíða til að halda fólki upplýstu um það sem þar er að gerast. Þetta er með miklum ólíkindum og ég óska eftir viðbrögðum frá hæstv. forsætisráðherra, hvort henni þyki þetta sæmilegt, hvort hér halli ekki um of á þann sem sótt er að og (Forseti hringir.) hvort það komi nokkuð til greina að beita sér fyrir því að síðunni verði einfaldlega lokað vegna þess að hún virðist fullkominn óþarfi.