139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

landsdómur.

[13:34]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Mig undrar nokkuð að hv. þingmaður skuli beina fyrirspurn til mín um það hvaða afstöðu ég hafi til þess að saksóknari Alþingis opni vefsíðu vegna þessa máls. Mér hefði fundist nærtækara að beina henni til þeirra sem fyrir þessu standa, sem væntanlega er Alþingi, og biðja forsætisnefnd að svara fyrir það.

Ég verð að segja um þetta mál að í heildina tekið finnst mér það hafa tekið allt of langan tíma. Það má vera að saksóknari hafi sín rök í því máli og ég geri alveg ráð fyrir að hún vinni í samræmi við lög og reglur og að það sem hefur tafið þetta mál eigi sér sínar skýringar en að mínu viti hefur það samt tekið of langan tíma.

Það er alltaf verið að tala um opna og gegnsæja stjórnsýslu þannig að út af fyrir sig — án þess að ég hafi nokkuð vitað um þetta mál fyrr en hv. þingmaður upplýsir það hér í ræðustól — get ég ekki séð að óathuguðu máli, svo ég undirstriki það nú, að það sé eitthvert athugunarefni að opnuð sé vefsíða í þessu skyni. Auðvitað finnst mér þá að sjónarmiðum sakborningsins ætti líka að vera haldið til haga á þeirri síðu.

Eins og ég segi ítreka ég að mér hefði frekar fundist að það ætti að beina þessari fyrirspurn til forsætisnefndar eða forseta þingsins.