139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

landsdómur.

[13:36]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir að bregðast við. Ég kem ekki hingað upp til að halda forsætisráðherra ábyrgri fyrir því sem hér er að gerast, ég er einfaldlega að kalla eftir sjónarmiðum og lýsa þeirri skoðun minni að mér þyki þetta fullmikið af hinu góða og fyrir löngu hafa tekið út yfir allan þjófabálk hvernig farið er með sakborning í þessu máli. Ég rakti áðan hvernig ákæra var gefin út í fyrsta sinn í Íslandssögunni án þess að sakamálarannsókn hefði farið fram, hvernig hann fékk ekki skipaðan verjanda og hvernig hér var reynt að breyta lögum eftir að lagt hafði verið af stað. Og nú er embættið búið að opna sérstaka vefsíðu eins og það sé eitthvert tilefni til þess.

Ímyndið ykkur þetta, kæru tilheyrendur, í engu öðru sakamáli hefur nokkru sinni verið opnuð vefsíða til að halda fólki upplýstu. Það er ekkert sérstakt í þessu máli sem gefur tilefni til að ætla að fólki reynist erfitt að nálgast málsskjölin. Síðan er auðvitað hitt, að landsdómur er bara með þetta eina mál þannig að það er bara einn sakborningur sem málið snertir. (Forseti hringir.) Mér finnst þetta með miklum ólíkindum. Ég er ekki að óska eftir því að hæstv. forsætisráðherra axli ábyrgðina á því, ég vil einfaldlega koma þessari skoðun minni á framfæri og mér finnst skipta máli hvað forusta ríkisstjórnarinnar hefur um málið að segja.