139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

framkvæmd launastefnu hjá stjórnsýslunni.

[13:40]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það var alveg ljóst að eftir hrunið þyrfti að grípa til margvíslegra og róttækra aðgerða, aðhaldsaðgerða í ríkisfjármálunum. Þetta var eitt af því sem við samþykktum að fara í, þ.e. að lækka laun í stjórnsýslunni. Ég vissi ekki annað en að eftir því hefði verið farið og það væri samræmi í þessum aðgerðum milli ráðuneyta og ríkisstofnana. Ef svo er ekki er það auðvitað bagalegt og ekki í samræmi við þá ákvörðun sem tekin var.

Ég dreg ekkert í efa að það sé rétt sem hv. þingmaður nefnir, að það komi fram í A-hluta ríkissjóðs að þarna sé framúrkeyrsla upp á mjög háa upphæð sem hv. þingmaður nefnir. Af því gefna tilefni er full ástæða til að skoða hvaða skýringar eru þarna á og hvernig þetta hefur verið framkvæmt. Þessi framkvæmd er á vegum fjármálaráðuneytisins sem hefði þá átt að hafa eftirlit með þessu, en það er alveg sjálfsagt og eðlilegt í ljósi þessara upplýsinga að ég leiti skýringa á þessu, bæði hvort aðgerðirnar hafi ekki verið samræmdar og gengið þá yfir allt opinbera kerfið eins og það átti að gera og hverjar séu þá helstu skýringar á þessu launaskriði.