139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

aðgerðir ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga.

[13:43]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Á fundi efnahags- og skattanefndar í gær sagði Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, að það frumvarp sem við ræddum, frumvarp um ráðstafanir í ríkisfjármálum í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við undirritun kjarasamninga, gengi þvert á þá yfirlýsingu. Gylfi sagði að það væri verið að skattleggja lífeyrissjóðina og það kæmi niður á kjörum lífeyrisþega á almenna markaðnum. Hann sagði að þetta kæmi til skoðunar hjá samninganefnd ASÍ 22. júní nk. og að það yrði erfitt að sannfæra hana um að samþykkja kjarasamningana þegar gengið er þvert á yfirlýsinguna. Þá rakna samningarnir upp 1. febrúar nk. Hjá opinberu sjóðunum eru réttindin auk þess föst og þar þyrfti að hækka iðgjald ríkisins og þar með skatta á sjóðfélaga almennu sjóðanna. Þeir eru sem sagt lestaðir tvöfalt og mismunur í lífeyrisréttindum vex við þetta frumvarp en minnkar ekki.

Þegar því var haldið fram á fundinum að samráð hefði verið haft í þessu máli sagði Gylfi það vera lygi, að ekkert samráð hefði verið haft. Þetta vekur upp hugleiðingar um að það kemur fyrir í sívaxandi mæli, frú forseti, að ekki er haft samráð, það er ekki talað við kóng eða prest, menn keyra áfram þvert á allt og alla og mér finnst þetta ákveðnir einræðistilburðir hjá hæstv. ráðherrum, Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrími J. Sigfússyni. Mér finnst það mjög alvarlegt og mér finnst að Alþingi þurfi að skoða þetta, alveg sérstaklega þegar við sjáum að hér eru keyrð inn frumvörp með þvílíku hraði og keyrð í gegn af meiri hlutanum án þess að fá umræðu eða að kallaðir séu til gestir.